Áskapað atvinnuleysi
Það er sorglegt að horfa enn upp á síaukið atvinnuleysi á Suðurnesjum, á þeim árstíma sem það venjulega minnkar. Þetta er reyndar eðlileg afleiðing af stefnu núverandi ríkisstjórnar.
Það var tekist hart á um atvinnumál fyrir síðustu kosningar. Annars vegar var ríkisstjórnin sem lagði traust sitt á vikjun og stóriðju á Austurlandi sem ljóst var að myndi gleypa óhemju fjármagn, sprengja upp gengi krónunnar og þannig vinna gegn öðrum fyrirtækjum í útflutningi og ferðaþjónustu. Einnig var lofað óbreyttu ástandi í hersetunni á Miðnesheiði sem nú er ljóst að hlaut að vera vísvitandi blekking.
Á hinum kantinum voru Vinstri grænir sem vilja ekki fórna okkar dýrustu náttúruperlum á altari stóriðjunnar heldur styðja og efla smá og meðalstór fyrirtæki um land allt. Einnig viljum við að Íslendingar taki frumkvæði að því að losa sig smám saman við herinn og byggja upp heilbrigðari atvinnu í stað þess að hrekjast undan duttlungum Bandarískra stjórnvalda.
Það bar til tíðinda í vetur að þingmenn VG fengu samþykkta "Þingsályktun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum". Þar felur Alþingi ríkisstjórninni “að vinna framkvæmdaáætlun um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Meginmarkmið aðgerðanna verði að auðvelda mönnum að stofna til atvinnurekstrar, hlúa að nýsköpunar- og þróunarstarfi í smáatvinnurekstri og greiða fyrir vexti og viðgangi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.” Áætlun þessa á ríkisstjórnin að leggja fyrir Alþingi til staðfestingar í haust. Sjá nánar á slóðinni http://www.althingi.is/altext/130/s/1135.html Nú er vonandi að ríkistjórnin fari að vilja Alþingis og geri eitthvað raunhæft í þessu mikilvæga máli.
Hið mikla atvinnuleysi hér um slóðir er rökrétt afleiðing stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar og hernaðardekurs. Verst er ástandið meðal kvenna. Ég skil vel að margar konur veigri sér við því að fara í meirapróf og ráða sig á trukk austur í Kárahnúka. Þeim gæti hentað betur annars konar vinna nær sínu heimili.
Hátt gengi krónunnar og almennt skeytingarleysi stjórnvalda er að ganga að mörgum sprotafyrirtækjum dauðum. Um leið og við gleðjumst yfir samdætti Bandaríkjahers hér á landi er leitt að horfa upp á að ekkert sé gert til að tryggja þeim atvinnu sem missa vinnuna þar.
Við ættum að fara með þá bæn kvölds og morgna að líf þessarar ríkisstjórnar fjari út sem fyrst svo hægt verði að þróa atvinnulíf landsmanna til farsælli vegar.
Svo ætla ég að vona að þið, lesendur góðir, njótið sem best sumarblíðunnar.
Þorvaldur Örn Árnason, í stjórn VG á Suðurnesjum.