Ásbrú: Útivistar paradís, lýðheilsa

Silfurverðlaun á Ólympíuleikum! Dagurinn er 24. ágúst og árið er 2008. Þetta er dagur sem mín kynslóð mun seint gleyma. Þetta er líka dagurinn sem ég hóf nám við Háskólabrú Keilis. Ég er úr útskriftahópi tvö ásamt fjöldanum öllum að frábærum einstaklingum. Þessum áfanga er ég virkilega stolt af. 
 
Fyrir nær 10 árum síðan flutti ég með fjölskyldu mína á Ásbrú. Svæðið hét vissulega ekki Ásbrú þá, það hét í raun.... alls ekki neitt, kallað Keilis-svæðið. 
 
Ég kom hingað full tilhlökkunar, nú var tækifæri fyrir okkur sem aldrei höfðum sótt  formlega menntun að setjast hér að og hefja nám. Ódýrt húsnæði með mikið af hlunnindum. Ásbrúarsvæðið átti að verða okkar háskólasamfélag. Hækkun menntunarstigs á Suðurnesjum, frumkvöðlar áttu að eiga framtíð hér. Menntunarstig hefur hækkað með tilkomu Keilis. Við eigum frumkvöðla á svæðinu. Ekki tel ég þetta þó nægilegt. Þar sem ekki var hægt að bíða með að fá gróðann í veskið var hugmyndafræðin látin lúta fyrir aurnum. Leiguverð hefur hækkað svo um munar á þessum árum. Þjónustan hér á svæðinu er tiltölulega lítil. Hér fýkur drasl um alla garða. 
 
Leiksvæði eru í niðurníðslu. Tel ég að hér þurfi að taka höndum saman og að bæjarfélagið taki á stóra sínum og gangist við hverfinu Ásbrú. Því við viljum ekki vera gleymda hverfið. Er þá ekki kominn tími á nýja sýn á Ásbrú. Væri ekki tilvalið að Ásbrú yrði „grænt svæði“ það svæði sem tekur upp flokkun á rusli og haldi áfram að efla lýðheilsu allra íbúa í Reykjanesbæ?
 
Sporthúsið hefur upp á margt að bjóða. Þangað sækir fjöldinn allur að fólki til þess að bæta heilsu sína og efla félagsleg tengsl. Öllum líður okkur betur þegar við ræktum líkama og sál. Mín sýn er að Ásbrú verði útivistar paradís. Við höfum landið til þess að byggja upp fallegt útivistarsvæði. Hér er mikið hægt að gera með viljann að vopni. 
 
Í mars 2018 voru íbúar Ásbrúar 2.987 eða 16,55% íbúa Reykjanesbæjar. Það er ansi fjölmennt hverfi. Ég tel það ekki of mikið að biðja um að Ásbrú verði samþykkt af öðrum hverfum Reykjanesbæjar. Við erum komin til að vera, eða alla vega ég. En ég tel að spýta þurfi í lófana til þess að vel heppnist. Á tíu árum hefur okkar samfélag sem heitir nú Ásbrú breyst. Áður fyrr fögnuðum við góðum degi með að skella í grill. Við erum svo heppinn að herinn skildi eftir frábær svæði til þess að fagna. En þetta heyrir því miður sögunni til. Leiksvæði barna eru því miður í molum vegna þess að þau heyra ekki undir þá staðla sem þarf. En þau eru þarna enn þá, en enginn ætlar að laga né heldur að taka þessi svæði niður. Það virðist sem svo að það ætli enginn að taka ábyrgð!
 
Ég vonast til þess að fá tækifæri til þess að berjast fyrir mínu hverfi. Mér líkar vel að búa á Ásbrú. Ég vil aftur á móti að margt breytist. Ég vil sjá þá gleði sem ég sá hér um árið. Við íbúar Ásbrúar erum hluti af Reykjanesbæ, við skilum okkar til samfélagins en fáir vilja leyfa okkur að vera með. Mér líkar það mjög illa. Eflum tengsl Ásbrúar við önnur hverfi Reykjanesbæjar. Ég sem íbúi á Ásbrú tel að við fjölskyldan og 2.984 nágrannar okkar eigum rétt á að tilheyra bæjarfélaginu. Því gæti þessi hugmynd orðið kveikjan á því. 
 
Gerum eitthvað skemmtilegt og gerum það saman.
 
Áslaug Bára Loftsdóttir
2. sæti á lista VG og óháðra í Reykjanesbæ