Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ásakanir um mútur
Vogar á Vatnsleysuströnd. VF-mynd: Oddgeir Karlsson
Miðvikudagur 12. desember 2012 kl. 09:03

Ásakanir um mútur

Opið bréf til Ingu Sigrúnar Atladóttur forseta bæjarstjórnar  Sveitarfélagsins Voga:

Ágæta Inga.

Í ljósi þeirra grafalvarlegu ásakana um mútur sem þú, sem forseti bæjarstjórnar,  varpaðir fram í viðtali við þá félaga í Reykjavík síðdegis þann 29.11. s.l. í kjölfar ákvörðunar bæjarstjórnar um lagningu raflína gegnum sveitarfélagið, sjáum við bæjar og varabæjarfulltrúi í Sveitarfélaginu Vogum okkur knúin til að senda þér þessar línur.

Í viðtalinu sagðir þú:
„Já ég hérna, það hefur nú verið rætt, það hefur nú verið í umræðunni um hérna mútur Landsnet, sem að er kallaður kannski fórnarkostnaður og það hefur verið í umræðunni hjá okkur þó að ekki sé nú meira sagt sko. En ég var á fundi með Þórði hérna forstjóra Landsnets hjá atvinnuveganefnd í fyrra líklega og þar nefndi ég múturnar við hann og hann varð mjög reiður yfir þessu og sagði að þetta væri ekki, ekki hérna raunhæft það sem ég væri að tala um, þeir væru alls ekki að bjóða neitt slíkt sko, þó að ég hérna hafi nú svona smá heimildir um annað.“

Við sum sem störfum með þér í bæjarstjórn höfum kallað eftir því að þú annaðhvort upplýsir hverjir hafa samkvæmt þínum  heimildum hafa þegið mútur, eða dragir til baka þessa yfirlýsingu þína og byðjist afsökunar á henni. Við svosem gerum okkur grein fyrir því að þú ættir fyrst og fremst að upplýsa yfirvöld um þau lögbrot sem þú hefur heimildir fyrir og að við eigum enga heimtingu á frekari upplýsingum þar að lútandi, en gott væri að fá að vita ef þú varst bara að ...... ljúga, það hreinsaði þá okkur hin af grun um saknæmt athæfi, og ekki síður þá sem sátu í bæjarstjórn á síðasta kjörtímabili (auk þriggja bæjarstjóra).

Þú hefur orðað þá eftiráskýringu (þó aðeins við okkur í bæjarstjórninni – ekki opinberlega það við best vitum) að í þessu viðtali hafir þú með mútum átt við svokallaðar „mótvægisaðgerðir“ þar sem viðsemjandi sveitarfélagsin hafi verið fenginn til að leggja út í kostnað fyrir sveitarfélagið svo að af samningum gæti orðið. Gott og vel. Meirihluti sá er starfaði hér þegar frá samningum var gengið reyndi vissulega að fá Landsnet til að leggja fé til samfélagsins. Landsnet vildi minna gefa en við vildum fá. Það var um rætt að endingu að Landsnet kæmi að fjármögnun reiðstíga. Ekkert undirritað en klár skilningur milli aðila (vitum ekki hvort þú þekkir þetta, svokallað heiðursmannasamkomulag) um að af því yrði. Þetta vissir þú Inga, hvar var mútuumræðan þá?

Þegar loks var tímabært að hefja undirbúning  við reiðstígagerð var haft samband við Landsnet, ekki er annað að sjá af þeim samskiptum en að þeir hafi verið til í slaginn, hvenær var þetta?  Jú í september 2011. Hver var þá forseti bæjarstjórnar? Jú, það varst þú! Og mútuumræðan hvergi! Þá kom tillagan um að banna loftlínur (voru það kannski reiðstígar sem þú ekki vildir, en kunnir ekki við að segja það?).  Í þessu samhengi væri gott að vita hvort þú komir til með reyna að fá stuðning frá Landsneti til reiðstígagerðar  eða hvort það á bara að bíða betri tíma.

Nú er spurt, eru það þessar reiðstígahugmyndir sem í þínum huga eru mútur? Af hverju stoppaðir þú ekki málið árið 2011? Manstu eftir aurum frá Magma sem deilt var til félagasamtaka í sveitarfélaginu samkvæmt tillögum þínum, Jóngeirs og Bergs? Voru það mútur? Þú hlýtur að vera að tala um eitthvað annað en framlag til samfélagsins þegar þú talar um mútuumræðu og heimildir fyrir mútugreiðslum.... kærðu málið strax til lögreglunnar, eða segðu okkur að þú hafið verið að..... ljúga.

Við höfum beðið með að gera mál úr þessu opinberlega þar sem við vildum sjá hvað þú og þitt fólk ætluðuð að gera. Við áttum jafnvel von á því að þú stigir fram og axlaðir ábyrgð, létir öðrum eftir forsetatarfið, sýndir að þú værir fulltrúi heiðarleika í pólitík og boðberi nýrra tíma nú þegar þú ætlar þér stóra hluti í landsmálunum, en nei það er ekki satt, við áttum ekkert von á því, við þekkjum þig betur en svo.

Þetta litla bréf til þín eru ekki okkar síðustu orð um þetta mál, við munum ræða það frekar á næsta bæjarstjórnarfundi.

Kveðjur,

Hörður Harðarson
Erla Lúðvíksdóttir
Bergur Álfþórsson
Ingþór Guðmundsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024