Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Árstíðirnar í Bergi
Föstudagur 25. október 2019 kl. 07:37

Árstíðirnar í Bergi

Það er ekki á hverjum degi sem bæjarbúum gefst kostur á stofutónleikum, eins og gerðist sl. sunnudag í Bergi, þessum líka hljómfagra sal Hljómahallarinnar. Það var pólski sendiherrann á Íslandi og Reykjanesbær sem buðu upp á tónleikana, fjóra konserta eftir Antonio Vivaldi, Árstíðirnar. Verkið er samið fyrir einleiksfiðlu og það var Masksymilian Haraldur Frach,  ungur pólsk/íslenskur Ísfirðingur og fyrrum nemandi m.a. Guðnýjar Guðmundsdóttur konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem lék aðaleinleikshlutverkið með pólskri strengjasveit nemenda listaháskólans í Kraká. Það fór ekki framhjá viðstöddum að sveitin lék af mikilli ástríðu fyrir verkinu og gleðin ljómaði strax í fyrsta konsertinum Vorinu rétt eins og í upphafskafla þess þar sem mest ber á fuglum sem kvaka dátt og flögra um loftin blá og einleikarinn sýndi hvað í honum bjó studdur fjórum fiðlum, víólu, sellói og píanói. Vorið er af mörgum talin fallegasta árstíðin og samnefndur konsert líka og var sá konsert, Vorið, valinn sem eitt af eftirlætis tónverkum þjóðarinnar í fyrra í hlustendavali RÚV. Og svo var Sumarið flutt. Einleikarinn, Haraldur Frach, vildi ekki líkja sumarblíðu Ítalíuskagans við veðrið hér norður undir pólnum og taldi að síðsumarsþrumur og eldingar Ítalíu væru sjaldséðar hér norðurfrá. Hann vildi túlka Sumarið  eins og sumarið fyrir vestan með vindgnauð í fjöllum og angandi lyngi og sjálfum fannst mér hann túlka Sumarið alveg eins og það hefði verið samið fyrir íslenskt sumar en ekki ítalskt. 

Og ekki voru gestirnir í Bergi þetta regnþrungna síðdegi haustsins illa svikin af Hausti Vivaldis. Haustið eins og Vorið eru ljúfir og leikandi konsertar þar sem náttúran skartar sínu fegursta og það finnur maður í tónlistinni þó svo úti fyrir lemji rok og regn kaldan októberdaginn. Stofuleikunum lauk svo með Vetrinum þar sem við skjálfum í norðan garra á jökulköldum ísnum í fyrsta þætti en svo tekur við hugljúfari hljómur í öðrum þætti þar sem við setjumst með góða bók við kertaljós og heitt kakó meðan veturinn andar kulda utan dyra. Lokaþátturinn, dregur svo upp dramatíska mynd af fólki sem þokast hægt eftir ísilögðu vatni og óttast að svellið bresti og maður finnur spennuna í músíkinni og ekki verður annað sagt en að þetta unga tónlistarfólk hafi skilað sínu með afbrigðum vel, einkum hinn ungi einleikari sem bókstaflega fór á kostum. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þessi konsert, fyrir fullum Bergsalnum sannfærði mig um að vel mætti halda hér stofutónleika oftar en ekki. Ég þakka fyrir mig.

Skúli Thoroddsen