Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Árni góður
Laugardagur 15. mars 2008 kl. 22:00

Árni góður

Áfram Árni, þú hefur minn stuðning. Þrátt fyrir að vera í hjarta mínu á móti álverum í byggð, get ég ekki annað en staðið við bakið á bæjastjóranum mínum þegar hann tekur svona af skarið. Að taka fyrstu skóflustunguna án pólitísk stuðnings þarf kjark.

Loksins höfum við mann með kjark. Ég er orðin þreytt á því að fá aldrei stuðning þingsins þegar á reynir. Kvótaúthlutun hefur verið fremur dræm til Suðurnesja, sér í lagi til Reykjanesbæjar. Rökin hafa verið þau að „þið hafið kanann“ eða „þið eruð ekki landsbyggð í raun, því þið eruð svo nálægt Höfuðborgarsvæðinu“. Enn og aftur á að nota sömu rökin. Landsbyggðin (sem er ekki þið) þarf meira á álveri að halda þið getið fundið eitthvað annað að starfa við.

Er einhver firra í gangi á hinu háa Alþingi? Átta þeir sig ekki á því að fólkið er hér og er að flytja hingað í stórum stíl, hvort heldur Íslendingar eða útlendingar? Reyndin er sú að þrátt fyrir álver á Austfjörðum vantar fólk til að vinna þar, því margt fólk einfaldlega vill ekki búa þarna. Fólksfjölgun hefur hverrgi verið meiri en í Reykjanesbæ og Suðurnesjum almennt. Í þeim tölum teljast ekki farandverkamenn. 

Álver Norðuráls í Helguvík skapar örugga vinnu fyrir nokkur hundruð manns þegar fram í sækir. Sú vinna verður ekki bara eftirsótt af Suðurnesja búum, heldur mun fólk af Höfuðborgarsvæðinu einnig sækja þangað eftir vinnu, þrátt fyrir að þurfa að keyra á milli, sem verður tiltölulega lítið mál þegar Vegagerðin hefur lokið verki sínu.

Ég skora á þingmenn okkar, sérstaklega Árnana tvo þá Árna M. Mathiesen og Árni Johnsen að standa einnig við bakið á bæjastjóra Reykjanesbæjar. Sýnið stuðning ykkar í verki og berjist fyrir því að álverið fái þær losunarheimildir sem það þarf, starfsleyfi og leyfi fyrir lagningu rafmagnslína. Einnig að Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur fái að framleiða þá orku sem álverið kemur til með að þarfnast í framtíðinni.

Áfram Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar, þú hefur minn stuðning.

Guðrún Guðmundsdóttir
deildastjóri
í Njarðvíkurskóla

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024