Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ari Arnljóts Sigurðsson - minningarorð
Sunnudagur 13. mars 2022 kl. 13:20

Ari Arnljóts Sigurðsson - minningarorð

Góður félagi og mannvinur, Ari Arnljóts Sigurðsson, féll frá 19. febrúar á nítugasta aldursári. Ari átti djúpar rætur í Framsóknarflokknum og starfaði innan vébanda hans um áratuga skeið ásamt Halldóru konunni sinni. Ari var duglegur að sækja félagsfundi Framsóknar á meðan heilsan leyfði. 

Ari og Halldóra voru mjög áhugasöm um framgang Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ, ávallt hvetjandi og gefandi góð ráð í baráttunni. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar var Ari gjarn á að gefa okkur unga fólkinu góð ráð. Hann fagnaði mjög vaxandi starfi innan Framsóknarfélags Reykjanesbæjar og hvatti okkur til dáða. Minnistætt var þegar Ari tók til máls á á félagsfundi vorið 2018 þegar listi flokksins fyrir kosningarnar var samþykktur. Stutt var í kímnina hjá Ara og lagði hann upp með þá staðreynd að enginn stefna stæðist eins vel tímans tönn eins og Framsóknarstefnan. Það sæist best á þeim öfluga hópi sem nú færi fram fyrir Framsókn í Reykjanesbæ. Unga fólkið skildi mikilvægi samvinnunnar og jafnvel hann, sem væri orðinn hálf heyrnalaus og gamall, yngdist um mörg ár við að sjá svo glæsilegan hóp! Ari ann flokknum og starfinu af heilum hug. Þau hjónin færðu Framsóknarfélaginu gjafir og sýndu í verki hversu dýrmætt það er fyrir Framsókn að eiga hugsjónafólk sem lætur gott af sér leiða fyrir samfélagið sitt. 

Ara verður sárt saknað. Halldóru og fjölskyldunni allri sendum við innilegar samúðarkveðjur. 

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður 

Díana Hilmarsdóttir,
bæjarfulltrúi 

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, varaalþingismaður 

Kristinn Jakobsson,
fyrrverandi bæjarfulltrúi.