Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Árgangagangan frábær hugmynd - Hafnargatan,  okkar Penny lane!
Miðvikudagur 10. september 2008 kl. 12:33

Árgangagangan frábær hugmynd - Hafnargatan, okkar Penny lane!

Ég mætti snemma í árgangagönguna á laugardaginn því í fyrra missti ég af henni. Þá kom ég rétt um eitt og gangan var farin framhjá. Ég ákvað að láta það ekki henda mig aftur. Eftir að hafa ekið í gegnum rigningaskúrir fram hjá Reykjanesskiltinu á Hollywood hæðinni og heilsað steinakörlunum og kerlingunum fagnaði ég sólinni sem braust fram svona rétt til að hleypa göngunni niður Hafnargötuna. Það voru fagnaðarfundir þó maður hafi átt erfitt með að átta sig á sumum. Einhverjir hafa verið búsettir erlendis í áratugi en komu til að hitta jafnaldrana. Gott skipulag og einstakur gáski og fjör ríkti í göngunni þar sem við gegnum niður okkar “Penny lane”  og all the people that come and go. Stop and say hello. Ég sönglaði laglínuna með sjálfri mér....Penny lane is in my ears and in my eyes. There beneath the blue suburban skies..  Það sem maður gat nú arkað upp og niður Hafnargötuna á unglingsárunum þegar skilaboðin bárust ekki milli manna með sms hraða heldur þróuðust eða tóku á sig nýja mynd milli Dorrasjoppu og Ísbarsins.

Bæjarstjórinn blés okkur svo andann í brjóst og sumir fundu jafnvel vott af nostalgíu við tilhugsunina um að flytja aftur á heimaslóðir eins og hann hvatti til er hann ávarpaði árgangana.  Bærinn iðaði af lífi og Hafnargatan var eins og eitt stórt ættarmót:  “Hei, er þetta ekki Kiddi Jens? Nei, Ingvar og Hera!  Stelpur, eru þið orðnar ömmur? Og í röðinni í hraðbankanum talaði unga fólkið um miðaverðið á ballið með Páli Óskari. Eitthvað fyrir alla aldurshópa hugsaði ég þegar ég tók mér stöðu í næstu biðröð með barnabörnin í tívolitækin.

Mér fannst ég heyra á tali fólkst að því finndist að sjálfsmynd svæðisins hefði styrkst til muna undanfarin ár og Ljósanótt væri þar þungt lóð á vogarskálunum. Ekki lengur þessi barlómur heldur vilji til að gera betur. Fólk í Reykjanesbæ er gestrisið sem svo sannarlega kemur fram á Ljósanótt. Litla ömmustelpan kreisti hendina á ömmu þegar skessur þrömmuðu um bæinn og sú stutta tók ekki í mál að taka hús á Skessunni í hellinum.  Einhverjir höfðu einhvern tímann talið um fisk undir steini en nú blómstraði allt af gleði og sköpun. Ótal margir og þá sérstaklega konur að því er mér fannst komu út úr skápnum og sýndu margskonar sköpunarverk sín og karlar á öllum aldri sýndu
Leikföngin sín sem sé bónaða fornbíla, sportbíla og kraftmikill hjól. Kóda með tískusýningu, víkingar hömruðu járnið og fígúrur voru skornar út í tré. Sannkölluð stemmning. Vildi bara þakka öllum þeim sem komu að skipulagningu Ljósanætur um leið og ég raula texta ljósanæturlagsins frá því í fyrra.  Ó, Keflavík, Keflavík æskuljóminn svo hlýr...

Takk fyrir mig.  
Helga Margrét Guðmundsdóttir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024