Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Árásir á Reykjanesbæ - smjörklípuárásir
Föstudagur 11. september 2009 kl. 14:45

Árásir á Reykjanesbæ - smjörklípuárásir


Nú hafa bæjarstjóri og formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar skrifað tárvott bréf til Katrínar Júlíusdóttur iðnaðarráðherra vegna yfirlýsinga hennar varðandi samning um sölu Reykjanesbæjar á hlut sínum í HS Orku.  Vilja þeir meina að þarna sé eingöngu um flokkspólitískar dylgjur að ræða,  allir virðast vera á móti þeim og á móti okkur Reyknesingum.

Ég sé hins vegar ekki hvernig hægt er að emja svo hátt yfir athugasemdum ráðherra nema eitthvað aumt sé undir.  Meirihluti Sjálfstæðisflokksins hafnaði tillögu minnihlutans á síðasta bæjarstjórnarfundi um að endurskoða samninginn en lagði svo fram áþekka tillögu þar sem segir m.a.:

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir yfir að ef nefnd sem ríkisstjórnin hefur nýverið skipað til að m.a. endurskoða nýtingargjald af jarðauðlindum og mögulega breyta nýtingartíma, kemst að þeirri niðurstöðu að almennt skuli miða við hagstæðari samninga en Reykjanesbær hefur þegar gert við HS Orku, er Reykjanesbær reiðubúinn að beita sér fyrir breytingum á núgildandi nýtingarsamningi í samstarfi við HS orku.“

Ekki er staðið jafn fast á bakvið þennan dásamlega samning og gert var í byrjun þannig að tvær grímur virðast hafa runnið á menn hvað hann varðar, en samt sem áður virðist stórkostlegur sársauki fylgja því þegar iðnaðarráðherra, úr röðum jafnaðarmanna, deilir á samninginn.  Ef einhver er að reyna að færa þessa umræðu í flokkspólitískar skotgrafir þá eru það áðurnefndir sjálfstæðismenn og vopnið sem varð fyrir valinu er síður en svo óþekkt.  Davíð Oddsson kynnti það sem „smjörklípuaðferðina“ fyrir nokkrum misserum í viðtali á Ríkissjónvarpinu.  Smjörklípan er nýtt í þessu tilviki til að leiða borgara Reykjanesbæjar frá sannleikanum.  En sannleikurinn horfir a.m.k. þannig við mér að samningurinn er arfa slakur og meirihlutinn stendur eftir með nokkrar baunir í hendi en beljan er farin.

Þótt samningur þessi sé til 65 ára þá er s.s.á. loforð um önnur 65 ár ef kaupandinn hefur áhuga og það er ávalt spurning hvort svo langur tími sé leiga eða sala.  Ég varð sl. sumar 26 ára gamall og það þýðir að ég verð, ef Guð lofar, 91 árs þegar samningstímanum er lokið.  Þótt ég sé barnlaus á þessari stundu þá verð ég það vonandi ekki til eilífðar og má því ætla að börnin mín verði komin langleiðina í eftirlaunaaldur að 65 árum liðnum.  Til að taka þetta raus mitt saman þá verður pabbi dáinn, ég kannski líka og börnin mín orðin eldri borgarar...  svo ekki sé talað um barnabörnin!

Getum við ekki reynt að leggja frá okkur smjörklípurnar og þess í stað reynt að finna eins farsæla lausn og mögulegt er?  Við megum ekki gleyma því að hvergi er atvinnuleysið meira en akkúrat hér og því þarf heldur betur að nota kraftana þar.

Hjörtur M Guðbjartsson

Fulltrúi A-listans í Atvinnu- og hafnaráði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024