Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Anton Bogason - minning
Föstudagur 16. mars 2018 kl. 09:33

Anton Bogason - minning

Dáinn 24.01.18 - Útför 06.03.18 frá Njarðvíkurkirkju.

Anton Bogason byrjað ungur að beita, róa á fiskibátum, hræra í steypu og vinna við múrverk. Hann valdi ekki léttustu vinnuna en tvítugur hafði hann byggt hús yfir sig, systur sína og móðir. Toni var nagli, harður af sér, fór sínar leiðir í lífinu og horfði aldrei til baka. Hann var lítið fyrir að láta aðra segja sér fyrir verkum, fámáll dugnaðarforkur sem lét verkin tala. Toni sagði mér frá múrverkinu, sjómennsku sinni og löngum úthöldum á Hólmatindi SU sem oft voru erfið og blaut. Hann var sjómaður í húð og hár, jaxl sem kunni til verka.
 
Það var lán fyrir mig að kynnast Tona þegar lífið tók að brosa við honum eftir að hann fluttist á Suðurnes með Helgu og börnum hennar. Hann sagði skilið við Bakkus sem hafi fylgt honum í gegnum öldudali lífsins, en óheflað málfarið gat verið ósanngjarnt og hvasst. Hann steig ölduna þegar hann gekk, brosið kom frá pírðum augunum undan húfunni og hláturinn hraður. Gæfa hans í lífinu var að eignast hana Helgu og börnin hennar. Hann sagði mér oft hver dýrmætt það hafi verið að eignast sína fjölskyldu og rísa undir því að vera faðir og afi, eiginmaður og fyrirvinna. Vera til staðar fyrir sitt fók, vera edrú og taka ábyrgð. Þar vorum við vinirnir saman á báti og kynntumst þegar við báðir sóttum sömu AA-fundina í Reykjanesbæ. Þar varð góð vinátta að gæðastundum sem við áttum saman með fleiri félögum sem voru af sama sauðahúsi og höfðu bundið landfestar í nýrri höfn.
 
Toni naut gæða edrúmennskunnar, að vera til staðar fyrir sitt fólk. Ávöxtur þess var að Toni eignaðist nafna, Anton Breka, sem fyllti líf hans stolti og ástúð afans. Það var því mikill harmur sem kveðinn var að fjölskyldunni þegar frétt um dauða drengsins kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Sorgin var algjör og Toni sagði mér að hann hafi áfellst Guð fyrir missinn. Hann fór í fýlu við almættið, fannst Guð bregðast sér og dauði drengsins ófyrirgefanlegur og óbærilegur fyrir hann og foreldrana. Áður en yfir lauk var Toni búinn að fyrirgefa Guði en af eðlislægri þrjósku tók það tíma.
 
Það var gott að hringja til hans þegar ég var á löngum gönguferðum mínum, aleinn með sjálfum mér. Þá var nóg að slá á þráðinn og hann tók langa sögutörn, eins og hann slakaði út trolli á 500 föðmum og togaði síðan yfir karga og allt sem fyrir var hlæjandi eða bölvandi. Ég þurfti ekki að bregðast við löngum stundum. Hann var fyndinn sögumaður, hló með sjálfum sér og sá spaugilega hluti á lífinu og gerði óspart grín af sjálfum sér og öðrum. 
 
Veikindi Tona voru eins og langur, erfiður brælutúr og við vinir hans upplifað með honum hvernig hann glímdi við sjúkdóminn. Hann talaði óhikað um veikindi sín  og um ótímabæran dauða sinn á þann hátt að viðstaddir tóku stundum bakföll af hlátri. Það var hans leið til að komast í gegnum þrautirnar, tala sig frá sjúkdómnum, ögra honum og ganga fram af sjálfum sér og viðmælendum sínum. Síðasta togið var festa í botni, allt slitið niður og tjónið algjört. Toni vildi enga meðaumkun eða eftirmála og kann mér örugglega litlar þakkir fyrir þessa grein sem ég varð þó að skrifa. Einstakur maður er genginn og ég mun sakna hans. Votta Helgu og fjölskyldu samúð.
 
Ásmundur Friðriksson.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024