Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Andi jólanna svífur yfir vötnum
Föstudagur 9. desember 2011 kl. 13:53

Andi jólanna svífur yfir vötnum

- Ánægjuleg síðdegisstund í Frumleikúsinu

Átti virkilega ánægjulega síðdegisstund með 7 ára syni mínum og fullvaxta bróður mínum á vetrarverki Leikfélags Keflavíkur, „Jólasögu“ eftir Charles Dickens, sl. laugardag. Fyrirfram hafði ég ekki búist við að ganga yfir mig hrifinn út enda síður en svo auðvelt að setja þessa táknrænu barnasögu, sem flestir kannast við, upp á leiksviði. Annað kom þó á daginn enda lítið annað hægt að segja um uppsetninguna en að hún hafi tekist stórvel og farið langt fram úr væntingum.

Sölvi Rafn Rafnsson, nýr leikari á fjölum LK, var alveg kyngimagnaður í hlutverki Skröggs gamla og fátítt að sjá eins vel þróaðan karakter hjá leikara sem ekki hefur stimpilinn á réttum stað á rassinum (þ.e. úr leiklistarskólanámi). Það þarf enginn að segja mér að Sölvi hafi ekki áður stigið á svið þó hann hafi ekki áður sést leika listir sína með Leikfélagi Keflavíkur. Húrra fyrir Sölva og vonandi fá Suðurnesjamenn að sjá meira af honum í framtíðinni.

Annar nýr leikari á sviði LK var Davíð Óðinn Bragason sem fór með hlutverk Daða Tugby eldri. Dásamlegt var að sjá Davíð birtast á sviðinu með dæmigerðan Dickens pípuhatt, hann var eins og teiknaður út úr sögu eftir meistarann. Auðvitað þarf Davíð að vinna í framsögn sem leikari en að öðru leyti hafði hann allt sem til þarf, sterka nærveru á sviði.
Senan þar sem Ebenezer er ungur, túlkaður af Sigurði Smára Hanssyni, og verður ástfanginn af Bellu var virkilega falleg og get ég ímyndað mér að tárin hafi runnið hjá mörgum leikhúsgestinum við upplifunina á henni. Hin unga leikkona Þuríður Birna Björnsdóttir Debes var svo góð í hlutverki Bellu að ef einhver hefur ekki hrifist með í túlkun hennar leyfi ég mér að fullyrða að sá hinn sami sé jafn tilfinningalega bældur og aðalsögupersónan Ebenezer Skröggur. Að öllum öðrum leikurum ólöstuðum fannst mér Þuríður Birna eiga stærsta leiksigurinn. Langt er síðan ég hef upplifað eins sterka nærveru hjá svo ungum leikara.

Mikið gleðiefni var að sjá öll þessi hæfileikaríku börn og unglinga fara á kostum á sviðinu. Herdís Birta Sölvadóttir fær prýðiseinkunn fyrir túlkun sína á Tomma litla og Bergey Gunnarsdóttir var frábær í hlutverki Bensa litla og það þrátt fyrir að vera stúlkur í hlutverkum drengja, sem oft getur verið leikur að eldi á leiksviði.
Arnar Ingi Tryggvason er orðinn Suðurnesjamönnum kunnur á sviði og óhætt er að fullyrða að Arnar vaxi með hverri sýningu sem hann tekur þátt í sem leikari. Framburður hefur oft verið hans akkilesarhæll en í hlutverki skrifarans Cratchit er augljóst að Arnar hefur unnið mikið í þessum, fyrrum, veikleika sínum. Cratchit er falleg persóna og tákn umburðarlyndis og kærleika sem Arnar kemur vel til skila.
Áður en ég hætti þessari lofræðu minni um leikara sýningarinnar get ég ekki sleppt því að minnast á dramatískasta móment sýningarinnar þegar ponsurnar Herdís Björk Björnsdóttir Debes, í hlutverki Fáfræði, og Valur Axel Axelsson, í hlutverki Skorts, gengu yfir sviðið hönd í hönd klædd í slitna kartöflupoka eina fata. Auðvitað er auðvelt að hrífast með þegar svo ung börn birtast í lifandi leik en leikstjórinn Jón St. Kristjánsson nær að fara einkar vel með þessa litlu senu og meira að segja ég, fullorðinn karlmaðurinn, fékk tár í augun þá. Hádramatískt augnablik þó ekki hafi það verið flókið.

Ekki fannst mér leikstjóranum þó alltaf takast eins vel upp í að koma táknmyndum verksins til skila og í senunni með þeim Skorti og Fáfræði. Atriðið þar sem fyrrum viðskiptafélagi og eini vinur Skröggs, Jakob Marley, birtist að handan og tilkynnir honum um komu andanna þriggja var alls ekki nógu góð. Leikarinn í hlutverki Jakobs gerði vel þrátt fyrir ungan aldur en af einhverjum ástæðum ákvað leikstjórinn að fela hann nánast alveg fyrir áhorfendum. Hlekkirnir sem Jakob ber með sér hafa gríðarlega táknræna merkingu og hún kemst alls ekki nægilega vel til skila.
Þá hefði ég viljað upplifa mun sterkari umbreytingu á Skröggi eftir að þrír andar jólanna höfðu heimsótt hann um jólanóttina. Þar var allt of hratt haupið yfir sögu. Það eina sem get samt nefnt sem virkilega truflaði mig alla sýninguna var að Skröggur gamli skuli ekki hafa fengið að halda sínu fallega íslenska nafni í sýningunni. Óþolandi þegar eins góðar þýðingar hafa verið unnar á verkum erlendra meistara og tilfellið er með „Jólasögu“ fá ekki að halda sér. Af hverju leikstjórinn velur að kalla Skrögg sínu enska nafni Scrooge skil ég ekki, en það er e.t.v. ekki á hans ábyrgð heldur þýðandans Signýjar Pálsdóttur.
Þá á eftir að nefna sviðsmynd, ljósahönnun, tæknibrellur, förðun og udirleik Örvars Inga Jóhannessonar við sönglög sýningarinnar. Allt var þetta fagmannlega unnið þó málningarsletturnar á sviðsmyndinni og ofklístraðir fátæklingarnir hafi e.t.v. verið of mikið af því góða.

Að lokum vil ég nefna hversu upplífgandi það var að stíga inn í Frumleikhúsið að þessu sinni. Þar hafa átt sér stað framkvæmdir í anddyri og forljóta fatahengið (úr Þotunni sálugu) er loks á brott og rýmið þar frammi orðið þægilegra í alla staði. Gólfið hefur verið tekið í gegn og hinar sérlega ljótu flísar hafa vikið fyrir öðru og fallegra gólfefni. Um leið og maður gengur inn í leikhúsið upplifir maður strax að maður sé að koma í leikhús – en ekki ballstað eins og áður. Þá dáist ég að merki leikfélagsins sem málað hefur verið á gólfið við innganginn í leikhúsið.

Hvet alla Suðurnesjamenn og fólk sem á leið suður með sjó að skella sér á þessa sýningu þar sem andi jólanna bókstaflega svífur yfir vötnum og allir ættu að fara sáttir og pínulítið hrærðir út.
Til hamingju LK með vel heppnaða sýningu og framkvæmdirnar í anddyri.

Takk fyrir mig,
Þór Jóhannesson,
bókmenntafræðingur, leikhúsunnandi o.fl.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024