Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Andar liðinna ára
Sunnudagur 11. desember 2011 kl. 14:51

Andar liðinna ára


Ég hef sofið illa undanfarnar nætur og ástæðan er einföld - andar liðinna jóla hafa vitjað mín í draumi. Persónulega finnst mér jólin yfirleitt yndislegur tími og í gegnum árin verið einn af þessum uppáhalds tímum ársins en stundum hefur það gerst að á einu augabragði eru ég og Skröggur (Ebenezer Scrooge) orðin eins og síamstvíburar, þar sem neikvæðnin, fúlheitin og sjálfsvorkunnin ætla engan endi að taka. Þá verð ég svekkt og pirruð út í hátíðina og reyni að forðast ,,jólabörnin“ eins og heitan eldinn því ég verð svo meðvituð um að ég Á að vera í jólaskapi. Ástæða þess að andar liðinna jóla sjá ástæðu til að heimsækja mig á nóttunni er sú sama og hjá Skrögg, benda mér á hvað ég get gert betur og læra af mistökum fyrri jóla.

Fyrsti andinn sem vitjaði mín dró upp minningu af mér að skreyta fyrir jólin: Ég var nýflutt í íbúðina mína og hugsaði með sjálfri mér að þetta árið yrði húsið mitt valið ,,jólahúsið“ og með það í huga ræðst ég á seríuflækjuna úti í skúr. Ég finn hvernig jólastemmningin hellist yfir mig þegar ég byrja að festa jólaljósin upp í fallega stóra glugganum mínum og raula fyrir munni mér „Ég hlakka svo til, ég hlakka alltaf svo til“. Nokkrum klukkustundum, örfáum blótsyrðum, sprungnum perum og svitadropum síðar, er ég búin að fá nóg. „Það er ekki mér að kenna þótt allir séu hálf seríu-óðir í þessum bæ, þessi eina sería skal duga enda glugginn tæpir 6 metrar á lengd“. Less is more hentar mér á augabragði og ég horfi hneyksluð yfir nærliggjandi hús, reyni að telja sjálfri mér trú um að öfundsýki hafi ekkert með þetta að gera og labba um með svört sólgleraugu það sem eftir er af hátíðinni til að inntaka ljósmagns sé í algjöru lágmarki.

Andi númer tvö dró fram óskemmtilega minningu um mig í basli við jólatré: Þetta árið fór ég of seint af stað og enda með allt of stórt tré, það eina sem var eftir fyrir utan krækiberjalyng og pottablóm. Þetta verður geðveikt hjá mér í þetta sinn, það flottasta fram að þessu! Ég réði illa við tréð, dró það inn af svölunum eftir fína parketinu, snyrti neðsta hlutann með hrikalega búrhnífnum mínum og stakk svo í sjóðandi vatn. Heimilið var einhvern veginn undirlagt, jólatréð rammskakkt, búrhnífurinn ónýtur, parketið í lamasessi og klístraðar barrnálar stungust upp í iljarnar fram á nýtt ár. Þar sem ég stend og horfi á þennan hrylling ímynda ég mér að fjölskyldan í næsta húsi sé að sýsla við tréð sitt, syngjandi glöð og ánægð, smákökur og rjúkandi súkkulaði við höndina og allt undirlagt af hinni einu, sönnu jólastemmningu. Ég finn hvernig vonbrigðin og neikvæðnin hellast yfir mig og langar helst til að öskra „þið getið átt þessi jól fyrir mér“.

Þriðji andinn minnti mig óþægilega á hvernig ég var fyrst eftir að ég varð einhleyp. Þetta var á Þorláksmessu öðru hvoru megin við árið 2000 þar sem ég sá bara óþolandi hamingjusamt fólk leiðast um bæinn með skinnhúfur í stíl og flotta innkaupapoka sem sveifluðust í takt. Mætti þeim svo aftur úti að skokka nokkrum dögum síðar í nýju Nike göllunum í hárréttri litasetteringu sem þau gáfu hvort öðru í jólagjöf. Mér var nóg boðið, stoppaði og öskraði á eftir þeim „ok það sjá allir að þið eruð alveg ógeðslega happííííííí jólapar“. Ég fann hvernig öll þessi hamingja fór skelfilega fyrir brjóstið á mér - og áttaði mig á að ég var búin að ná botninum og var að breytast í Frú Scrooge í öllu sínu veldi.

Vinur okkar, Skröggur, áttaði sig ekki á hvar hann var staddur fyrr en andar liðinna jóla heimsóttu hann og drógu upp frekar svarta mynd af lífi hans héldist það óbreytt. Hann tók ákvörðun um að breyta lífi sínu í framhaldinu og sýndi kærleika í verki þar sem gjafmildi og gleði leystu neikvæðni og nísku af hólmi. Andarnir mínir eru duglegir að minna mig á að sleppa tökum á hégómanum, draga lærdóm af fortíðinni, njóta þessa að vera í nútíðinni og taka fagnandi á móti framtíðinni. Ég hlakka til að fá góðan nætursvefn og njóta góðra stunda á aðventunni.

Ég kemst í hátíðarskap...

Rún vikunnar er REIÐ:
Þessi rún hefur með samskipti að gera, samræmingu tveggja andstæðra póla og hina fullkomnu einingu sem verður í lok ferðalags þegar það sem er fyrir ofan og það sem er fyrir neðan hefur sameinast í einum huga.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þangað til næst - gangi ykkur vel

Anna Lóa