Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ánægjuleg þróun á Suðurnesjum
Föstudagur 10. nóvember 2006 kl. 10:39

Ánægjuleg þróun á Suðurnesjum

Prófkjör sjálfstæðismanna fer fram laugardaginn 11. nóvember nk.  Ég hef starfað sem alþingismaður í Suðurkjördæmi í tæp 3 ár og því er þetta mitt fyrsta kjörtímabil.  Einnig gegndi ég stöðu bæjarstjóra í Vestmannaeyjum 1990-2002. Ég hef mikinn áhuga á að starfa áfram fyrir Suðurkjördæmi.  Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 2. eða 3ja sætið í prófkjörinu sem fram fer n.k. laugardag.

Uppbygging og jákvæðni
Það er ánægjulegt að fylgjast með þeirri miklu uppbyggingu sem átt hefur sér stað á Suðurnesjum. Það er sama hvaða bæjarfélag á í hlut, ný hverfi hafa risið og bjartsýni ræður ríkjum. Íbúafjölgun  fylgir í kjölfarið og bæjarfélögin hafa styrkt stöðu sína.  En til að Suðurnesin haldi áfram að blómstra og séu áfram góður valkostur til búsetu, þarf að styrkja stoðir atvinnulífsins og sjá til þess að á svæðinu sé næg atvinna í boði.  Álver í Helguvík yrði til að mynda mikil lyftistöng, enda um að ræða um 300 ný störf.

Sóknarfæri á Keflavíkurflugvelli
Brotthvarf Varnarliðsins hefur sýnt fram á styrkleika svæðisins. Suðurnesjamenn eru staðráðnir að gera gott úr stöðunni og leita nýrra leiða til að nýta Keflavíkurflugvallarsvæðið. Bæjarfulltrúar hafa lagt fram góðar hugmyndir og gert allt til að aðstoða þá sem misstu atvinnuna  til að finna sig á nýjum slóðum. Húsnæðin á Keflavíkurflugvelli opna nýja gátt til atvinnuuppbyggingar.  Landhelgisgæslan á heima á Keflavíkurflugvelli þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar.  Einnig þarf að markaðssetja Keflavíkurflugvöll sem ákjósanlegan miðpunkt í vöruflutningum á milli austurs og vesturs. Hérna gætu mörg alþjóðleg fyrirtæki verið með vörubirgðarstöðvar , möguleikarnir eru óteljandi.

Styrkja stoðir menntamála
Það er ánægjuleg þróun hvað Suðurnesjamenn hafa tekið vel við sér varðandi fjarnám á háskólastigi. Auka þarf ennfrekar valkostina svo hægt sé að mennta sig í sem flestu heima fyrir. Íþróttaakademían hefur slegið í gegn og aðsóknin meiri en menn gerðu sér grein fyrir.  Samfélag eins og Suðurnesin eflast við aukið menntunarstig og því er nauðsynlegt að standa vörð um menntun á Suðurnesjum.

Aldraðir og öryrkjar
Eldri borgarar eiga það skilið að njóta lífsins eftir bestu getu. Á Suðurnesjum hefur DS veitt frábæra þjónustu og þarf svigrúm til að halda því áfram. Í Reykjanesbæ er framkvæmdir hafnar á Nesvöllum, nýju þjónustuhverfi fyrir aldraða. Þar verða 30 ný hjúkrunarrými, en mikilvægt að vera ávallt á varðbergi gagnvart þörfinni þar sem meðalaldur fer alltaf hækkandi. Einnig þurfa stjórnvöld, aldraðir og öryrkjar á ná sáttum sín á milli og afnema  tekjutengingu í bótakerfunum. Aldraðir og öryrkjar eiga ekki að þurfa að búa við skert kjör.

Samgöngur og ferðaþjónusta
Tvöföldun Reykjanesbrautar gengur vel. Þessi framkvæmd var löngu tímabær. Hún eykur ekki einvörðungu umferðaröryggi allra landsmanna, heldur  gerir Suðurnesin enn vænlegri til búsetu. Framkvæmdum við Suðurstrandarveg og Ósbotnaveg þarf að ljúka á næsta kjörtímabili. Þessir vegir bæta alla flutninga á milli svæða í Suðurkjördæmi. Góðar samgöngur eru einnig lykillinn að bættri ferðaþjónustu á Reykjanesi.

Heilbrigðismál
Langur biðtími eftir læknisþjónustu er óviðunandi ástand sem engin á Íslandi ætti að búa við. Lokun deilda og óöryggi sem því fylgir meðal íbúa á ekki að tíðkast heldur.  Það þarf að eyða óvissu og tryggja rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja  til framtíðar. Stofnunin er öflug og með nýjum húsakosti og því frábæra starfsfólki þar starfar er hægt að  stórbæta alla þjónustu við almenning. 

Áæti Suðurnesjamaður. Hér er eingöngu stiklað á nokkrum atriðum á Suðurnesjum en af nógu er að taka.  Ég hef mikinn áhuga og metnað til þess að vinna áfram að framfaramálum ykkur og kjördæmisins í heild.  Mér þætti vænt um stuðning í 2. eða 3ja sætið í prófkjörinu á laugardaginn. 

Með vinsemd

Guðjón Hjörleifsson
alþingismaður



Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024