Aðsent

  • Ánægja og ávinningur af Fyrirmyndardegi
    Frá Fyrirmyndardeginum.
  • Ánægja og ávinningur af Fyrirmyndardegi
Fimmtudagur 16. apríl 2015 kl. 15:42

Ánægja og ávinningur af Fyrirmyndardegi

Íris Guðmundsdóttir skrifar.

Fyrirmyndardagurinn verður haldinn 17. apríl og stendur Vinnumálastofnun fyrir deginum. Markmið dagsins er að atvinnuleitendur með skerta starfsgetu fái aukin og fjölbreytt tækifæri á vinnumarkaði. Á þessum degi bjóða fyrirtæki og stofnanir þeim að vera gestastarfsmenn í fyrirtækjunum í einn dag eða hluta úr degi. Afar mikilvægt er að fyrirtæki og stofnanir taki þátt í Fyrirmyndardeginum og gefi þannig atvinnuleitendum einnig innsýn í störf hjá ólíkum fyrirtækjum. 
 
Í fyrra var Fyrirmyndardagurinn haldinn í fyrsta sinn á Íslandi og gekk dagurinn vonum framar. 46 atvinnuleitendur með skerta starfsgetu prófuðu sig áfram sem gestastarfsmenn í 35 fyrirtækjum og stofnunum. Störfin voru fjölbreytt og má þar nefna störf í leikskólum, stjórnsýslu, verslunum, iðnaði, skrifstofum, banka og þjónustu. Almenn ánægja var hjá fyrirtækjum með þetta framtak og fengu fjórir vinnu í kjölfar dagsins en aðrir fengu að kynnast nýju starfsumhverfi og auka víðsýni sem nýtist í framhaldi í atvinnuleitinni. 
 
Gestastarfsmennirnir voru afar ánægðir með að prófa ný störf og í sumum tilfellum var um draumastarfið að ræða og einnig mynduðust ný kynni sem er ómetanlegt. Ávinningur dagsins er ekki einungis fyrir atvinnuleitendur heldur geta þátttökufyrirtækin kynnt sín störf og um leið að kynnst styrkleikum þeirra sem eru með skerta starfsgetu. 
 
Við hvetjum alla til þess að skoða Facebooksíðu Fyrirmyndardagsins en þar eru fréttir, upplýsingar, myndir og annað tengt deginum. Þar má auk þess senda inn fyrirspurnir eða hafa samband við Vinnumálastofnun.  
 
Hlökkum til að eiga skemmtilegt samstarf við atvinnuleitendur og fyrirtæki 17. apríl.
 
Íris Guðmundsdóttir
Forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum
 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024