Áminning
Ólafía Kristín Norðfjörð skrifar.
Árangurinn sem náðst hefur í forvörnum gegn tóbaksnotkun, áfengisdrykkju og neyslu á öðrum vímuefnum er gildur og góður. Ég vona innilega að við séum öll sammála um að þessa hluti ætti að forðast í lengstu lög og helst alla ævi. Ástæðan fyrir skrifum mínum er niðurstaða könnunar sem SamSuð (Samtök félagsmiðstöðva á Suðurnesjum) framkvæmdi og leiddi í ljós að táningur gat keypt áfengi í vínbúð á Suðurnesjum. Táningar voru þá sendir inn til að athuga hvort þeir gætu fest kaup á áfengi og einn þeirra náði því.
Það síðasta sem við eigum að gera er að leita af afsökunum eða að kenna einhverjum um. Nýtum þetta sem áminningu um það góða verk sem unnið hefur verið í þessum málum og áminningu um að það má ekki slaka á. Þegar kemur að forvörnum þá er enginn undanskildur því við sem fullorðið fólk erum fyrirmyndir í þessum efnum. Skólar, íþróttafélög og æskulýðshópar vinna að því í samráði við heilbrigðisyfirvöld að upplýsa og mennta börnin okkar um áhætturnar sem fylgja neyslu vímuefna. Það þýðir þó ekki að þessar stofnanir sjái um þetta eða að þau séu á einhvern hátt að slaka á taumnum.
Það er innsti hringur barnsins sem hefur úrslitaáhrif á hversu vel það móttekur boðskapinn. Við hin fullorðnu erum öll kennarar sama hvort við erum foreldrar, frændfólk eða vinafólk og höfum við langflest tækifæri til að hafa áhrif á líf ungra einstaklinga. Í mörgum fjölskyldum eru einstaklingar sem berjast við áfengisvandamál, ennþá fleiri innihalda tóbaksneytendur og einhverjar þeirra hafa upplifað að einhver kærkominn berjist við eiturlyfjafíkn.
Afleiðingarnar hafa sýnt sig og því afar líklegt að hver og einn geti hugsað sér frænda eða frænku, vin eða vinkonu sem hefði getað gert svo margt gott ef einungis hann/hún hefði ekki eytt lífinu í að berjast við fíknina eða dáið of snemma vegna veikinda sem fíknin var valdur af.
Skyggnist í smástund til framtíðar og ímyndið ykkur börnin í ykkar lífi eftir 20 ár eða 40. Við viljum öll það besta fyrir börnin og þess vegna mikilvægt að þau sleppi sem flest við þann þunga bagga sem baráttan við vímuefnin er.
Einhver sagði að það þarf þorp til að ala upp barn og það á svo sannarlega við í þessu tilfelli. Við verðum að byggja upp og styrkja samstöðu okkar í málinu. Því þurfum við öll að halda fána forvarna á lofti og reyna okkar besta að hafa áhrif á unga fólkið okkar sem munu vera áhrifavaldar framtíðarinnar.
Ólafía Kristín Norðfjörð
Nemi í Uppeldis- og menntunarfræði við Háskóla Íslands