Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 26. janúar 2004 kl. 09:31

Ályktun vegna löggæslumála

Frjálshyggjufélagið harmar það ástand sem að undanförnu hefur skapast í þjóðfélaginu. Glæpum hefur farið fjölgandi og aukin harka er að færast í ofbeldisverk og fólskulegar líkamsárásir og jafnvel mannrán. Bankarán hafa aldrei verið jafn tíð og innbrot eru algengari en áður. Stóran hluta þeirra glæpa sem áberandi hafa verið að undanförnu má rekja til skulda eða átaka í heimi fíkniefnaviðskipta og neyslu. Ástæða þess að lánardrottnar í heimi fíkniefnaviðskipta beita ofbeldi til að rukka inn skuldir er að þeim er engin önnur leið fær. Lánadrottnum er ekki fært að sækja rétt sinn innan dómskerfisins og skuldunautar njóta ekki verndar réttarkerfisins líkt og aðrir með svipaðar skuldir á bakinu.

Frjálshyggjufélagið hvetur til endurskoðunar á þeim aðferðum og lagasetningum sem notaðar hafa verið í baráttu við fíkniefnavandann. Vera kann að tími sé til kominn að skoða breyttar áherslur og aðrar aðferðir við að takast á við þann ógnarheim sem blasir við ungum fíkniefnaneytendum. Stríðið gegn fíkniefnum og viðskiptum með slík efni hefur verið háð í öllum löndum heims í mörg ár. Árangurinn hefur þó staðið á sér. Aldrei hafa fleiri setið í fangelsum heimsins fyrir ólöglega eign á fíkniefnum. Aldrei hafa fleiri látið lífið í átökum í undirheimum fíkniefnaviðskipta og aldrei hafa fleiri hafið neyslu á slíkum efnum.

Lausn vandans kann að felast í því að hleypa viðskiptum undirheimanna upp á yfirborðið svo yfirvöld geti haft með þeim almennt eftirlit. Neytendur fengju þá einnig lögvernd og með hjálp réttarkerfisins mætti útkljá deilumál í réttarsal í stað líkamsmeiðinga, fólskuverka og jafnvel morða í skjóli myrkurs.

Það stríð sem nú er háð er orðið að þrátefli sem engan enda virðist ætla að taka. Tími er til kominn að bjarga mannslífum, hjálpa fíklum og auka öryggi íslenskra borgara.

Frjálshyggjufélagið
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024