Ályktun frá stjórn Frjálslynda flokksins
Stjórn Frjálslynda flokksins harmar það að sjávarútvegsráðherra ætli einu sinni enn að fara eftir reikningsfiskifræði Hafrannsóknarstofnunnar varðandi hámarksafla á komandi fisveiðiári.
Stjórn Frjálslynda flokksins telur að í því hörmulega ástandi sem nú ríkir í þjófélaginu sem kemur fram í miklu og langvarandi atvinnuleysi og niðurskurði á öllum sviðum velferðarkerfisins að það sé ekki forsvaranlegt að fara í blindni eftir ráðgjöf sem aldrei hefur gengið upp og gengur í berhögg við viðtekna vistfræði.
Stjórn Frjálslynda flokksins krefst þess að bætt verði við veiðiheimildir þannig að þorskaflinn verði aukinn um a.m.k. 100 þúsund tonn og sömuleiðis blasir við að rétt sé að auka sókn í aðrar fisktegundir. Auknar veiðar leiða til aukinna tekna og draga strax úr atvinnuleysi.
Stjórn Frjálslynda flokksins undrast og lýsir yfir miklum vonbrigðum með að ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar virðist ekki ætla að breyta núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi í haust eins og gefin voru hátíðleg fyrirheit um í aðdraganda síðustu kosninga og fest var með skýrum hætti í stjórnarsáttmálann.
Stjórn Frjálslynda flokksins fagnar ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að gefa veiðar frjálsar á úthafsrækju enda hefur það verið baráttumál Frjálslynda flokksins frá stofnun hans að fækka kvótabundnum tegundum.
Það er krafa stjórnar Frjálslynda flokksins að ríkisstjórn Íslands virði mannréttindi íslenskra sjómanna sem ekki eru virt í dag samkvæmt áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2007.
Reykjavík 17. júlí 2010.
Stjórn Frjálslynda flokksins.