Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Ályktun frá Miðgarði, félagi sjálfstæðismanna á Bifröst
Miðvikudagur 27. desember 2006 kl. 15:27

Ályktun frá Miðgarði, félagi sjálfstæðismanna á Bifröst

Eftir mikinn og breiðan stuðning í prófkjöri sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi eru allar líkur á að Árni Johnsen taki sæti á Alþingi Íslendinga eftir næstu alþingiskosningar. Árni Johnsen hefur áður setið á þingi og varð þá m.a. uppvís og sakfelldur fyrir alvarleg afbrot í starfi. Árni hefur tekið út sína refsingu, hlotið uppreisn æru hjá embætti forseta Íslands og hefur því ótvírætt kjörgengi fyrir næstu alþingiskosningar. Stjórn Sjálfstæðisfélagsins Miðgarðs telur það því vera skýlausan rétt Árna Johnsen að taka sæti á Alþingi, fái flokkurinn fylgi til þess. Það er ekki einungis réttur Árna, heldur líka allra þeirra kjósenda er veittu honum umboð til þess í prófkjörinu. Vilji kjósenda flokksins í Suðurkjördæmi er skýr og hann ber að virða, enda er slíkur vilji forsenda lýðræðis í landinu.
Stjórn Miðgarðs telur þó að Árni Johnsen hafi brotið trúnað við Sjálfstæðisflokkinn og landsmenn alla með afbrotum sínum. Þann trúnað á Árni eftir að ávinna sér aftur. Stjórn Miðgarðs elur hins vegar með sér þá einlægu von að Árni muni nýta tækifærið og byggja trausta brú yfir þá gjá sem myndast hefur milli hans og almennings í landinu.
Sjálfstæðisfélagið Miðgaður vill því lýsa því yfir að það sé reiðubúið að veita Árna Johnsen annað tækifæri sem fulltrúi sjálfstæðismanna á Alþingi Íslendinga.

Bifröst, 7. desember 2006

Stjórn Sjálfstæðisfélagsins Miðgarðs

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024