Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 16. febrúar 2004 kl. 11:28

Ályktun frá Félagi leikskólakennara

Stjórn Félags leikskólakennara lýsir yfir alvarlegum áhyggjum vegna þess stefnuleysis sem ríkir hjá mörgum sveitarstjórnum um fyrirkomulag sumarleyfa í leikskólum. Þegar líða tekur á vetur hefjast jafnan umræður meðal margra sveitarstjórnarmanna um hvort loka eigi leikskólum í sumarleyfum eða ekki. Það er sérstaklega bagalegt fyrir foreldra leikskólabarna, leikskólakennara og annað starfsfólk leikskólanna að ekki ríki samræmd stefna í þessu efni.

Þess ber þó að geta að mörg sveitarfélög hafa þessi mál í föstum skorðum og loka leikskólum í sumarleyfum án þess að það valdi teljandi óánægju eða vandkvæðum. Umrædd sveitarfélög taka tillit til faglegra sjónarmiða stjórnenda leikskóla og taka mið af reynslunni og könnunum sem gerðar hafa verið. Það hefur sýnt sig að langflestir, bæði foreldrar og starfsfólk, óska eftir að sumarleyfi séu tekin yfir hásumarið, eða í júlímánuði. Félag leikskólakennara styður eindregið þau sveitarfélög sem hafa fast fyrirkomulag á þessu og hvetur þau til að halda stefnufestu sinni.

Félag leikskólakennara hefur lengi haft í stefnuskrá sinni að loka beri leikskólum a.m.k. fjórar vikur samfleytt á hverju sumri og hefur hvatt öll sveitarfélög til gera slíkt. Í leikskólastefnu félagsins stendur: FL leggur áherslu á að leikskólum sé lokað að minnsta kosti 4 vikur samfellt á sumrin og að leikskólastarfsemi sé skipulögð þannig að leikskólaárið hafi upphaf og endi.
      
Félag leikskólakennara gengur í skólastefnu sinni út frá þörfum barna og hefur að leiðarljósi það sem leikskólakennarar telja að sé börnum fyrir bestu. Reglufesta og stöðugleiki í leikskólastarfinu skiptir miklu máli fyrir öryggi barna og vellíðan. Þar að auki auðveldar sumarlokun starfsmannahald og skipulag skólastarfsins og svigrúm gefst til framkvæmda og viðhalds húsnæðis og lóðar. Ennfremur sparast afleysingar sem þýðir að sumarlokun er hagkvæmari leið. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og og því eðlilegt að skólaárið hafi  upphafi og endi líkt og á öðrum skólastigum. Börn og starfsfólk fara í sumarleyfi á sama tíma og koma endurnærð til baka tilbúin að takast á við næsta skólaár.

Með öðrum orðum tekur félagið hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra fram yfir þarfir vinnumarkaðarins og telur að í flestum tilvikum hljóti atvinnurekendur að geta tekið tillit til þeirra foreldra sem eiga börn á leikskólaaldri. Þörf er á að ná sátt um þetta í þjóðfélaginu, en til þess þarf umræða að fara fram, umræða sem vonandi leiðir til breytts hugsunarháttar og viðhorfa til yngstu þegnanna og foreldra þeirra og um leið leikskólastarfsemi. Félag leikskólakennara lýsir sig reiðubúið í umræður um málið.

Íslenskt þjóðfélag þarf að sýna það í verki að það vilji skapa barnvænt samfélag, m.a. með því að gera foreldrum kleyft að skipuleggja vinnu sína og leyfi út frá þörfum fjölskyldunnar.


Reykjavík, 12. febrúar 2004
Björg Bjarnadóttir formaður
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024