Lýsa áhyggjum af þróun fjárveitinga til HSS
Ályktun Fagráðs Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja
Fagráð HSS lýsir yfir áhyggjum af þróun fjárveitinga til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja í ljósi stóraukins íbúafjölda á svæðinu sbr. ný uppfærða skýrslu Deloitte, sem birt er á heimasíðu HSS.
Samkvæmt skýrslunni hefur fólksfjöldi aukist um tæplega 50% á síðustu 15 árum en fjármagn til stofnunarinnar ekki fylgt þeirri þróun.
„• Íbúum Suðurnesja hefur fjölgað um tæp 50% á árunum 2008-2023 en til samanburðar hefur íbúafjöldi á landinu öllu aukist um 22,9% á sama tíma.
• Samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar fjölgaði íbúum á Suðurnesjum um 6,7% á milli ára 2022 og 2023. Að því gefnu og byggt á fjárlögum ársins 2023 hefur heildar fjárveiting á hvern íbúa lækkað um tæp 27% á tímabilinu 2008-2023.
• Stofnunin sinnir heilbrigðisþjónustu sem flokkast á þrjú svið, heilsugæslusvið, sjúkrasvið og hjúkrunarrými. Fjárveiting til sjúkrasviðs á hvern íbúa hefur, miðað við gefnar forsendur um þróun íbúafjölda, lækkað um 50% á tímabilinu 2008-2023.“
Mikil jákvæð uppbygging hefur átt sér stað á HSS undanfarin misseri sem kemur skjólstæðingum og starfsfólki til góða og mikilvægt að fá fjármagn til að fylgja þeirri uppbyggingu eftir.
Fagráð HSS hefur áhyggjur af því að slík vanfjármögnun muni hafa áhrif á faglega þróun og þjónustu stofnunarinnar og HSS muni ekki geta staðið við þær skuldbindingar sem lög um heilbrigðisþjónustu fara fram á, líkt og Markús Ingólfur Eiríksson, forstjóri stofnunarinnar hefur bent á.