Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 4. nóvember 2002 kl. 17:25

Ályktanir af fundi framsóknarmanna í Suðurkjördæmi

Fjöldi ályktana var samþykktur á kjördæmisþingi Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi á fundi þeirra í Keflavík um helgina. Góðar samgöngur eru ein af meginundirstöðum samfélagsins, segir í einni ályktuninni. Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi (KSFS) haldið í Reykjanesbæ
3. nóvember 2002, fagnar því að nú skuli hilla í að tvö stórverkefni í samgöngumálum verði að veruleika: Tvöföldun Reykjanesbrautar og ný brú yfir Þjórsá. Hér er um brýn verkefni að ræða fyrir þjóðfélagið allt og í senn dregur úr slysahættu á fjölförnum vegum og bætir samgöngur.I.
Þingið áréttar að þegar á næsta ári verði af krafti hafin lagning nýs Suðurstrandarvegar svo sem var eitt af markmiðum kjördæmabreytingarinnar, auk lagningu vegar um Ósabotna.
Þingið skorar á Alþingi að gera stórátak í uppbyggingu tengivega í dreifbýli, sem og útrýmingu einbreiðra brúa á hringveginum.
Þá krefst þingið þess að þegar í stað verði fengin hraðskreiðari ferja til siglinga milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja og bæti þar með meginsamgönguæð við Vestmannaeyjar.
Mikilvægt er að ný brú yfir Hornafjarðarfljót komist á vegaáætlun. Þegar í stað verði könnuð hagkvæmni og tæknileg útfærsla á göngum undir Almannaskarð og Reynisfjall.
Undirbúin verði áætlun um endurbætur á veginum yfir Hellisheiði og Þrengsli þannig að hann anni hnökralaust þeirri umferð er þar fer um. Þá er brýnt að enduruppbyggingu Gjábakkavegar ljúki sem fyrst.

Þingið hvetur til þess að strax verði hafist handa við varnaraðgerðir og brúargerð við Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Fjarskipti eru hluti af nútímasamgöngum. Þingið minnir á byggðastefnu stjórnvalda og skorar á stjórnvöld að hraða áætlunum um uppbyggingu dreifikerfis fjarskipta þannig að ISDN/ADSL og gsm-samband náist til allra landsmanna.
Mikilvægt er að Ríkisútvarpið starfræki svæðisútvarp í Suðurkjördæmi og efli dreifikerfið þannig að RÚV heyrist allsstaðar í kjördæminu.

ÁLÖGUR HINS OPINBERA Á FLUTNINGA.

Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Reykjanesbæ
3. nóvember 2002, skorar á ríkisstjórn og Alþingi og grípa þegar í stað til þeirra aðgerða er draga megi úr álögum hins opinbera á flutninga innanlands.
Flutningskostnaður með vörur og fólk leggst þungt á landsbyggðina. Ekki síst eiga álögur hins opinbera snaran þátt í að leggja byrðar á einstaklinga og fyrirtæki á landsbyggðinni. Sá gjörningur stríðir gegn byggðastefnu. Því krefst þingið þess að þegar í stað verði gripið til þeirra aðgerða er lækkað geti flutningskostnað og þannig aukið vægi milli dreifbýlis og þéttbýlis.

ORKUMÁL.

Kjördæmisþing framsóknarmanna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Reykjanesbæ 3. nóvember 2002, skorar á Alþingi og ríkisstjórn að beita sér fyrir því að þegar verði teknar upp viðræður við orkufyrirtæki í Suðurkjördæmi með það að markmiði að öll orkufyrirtæki kjördæmisins renni saman í eitt fyrirtæki, SUÐURORKU. Slíkt fyrirtæki myndi spanna öll orkufyrirtæki kjördæmisins, þar með talinn hluta RARIK í kjördæminu. Með því móti telur þingið að best verði skipað orkumálum Suðurkjördæmis. Um leið verði lokið uppbyggingu þrífösunar í dreifbýli kjördæmisins.

ÁLYKTUN UM SJÁVARÚTVEGSMÁL.

Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, haldið í Reykjanesbæ 3. nóvember 2002, lýsir yfir vilja til að áfram verði unnið í núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi meðan engar aðrar betri lausnir eru í sjónmáli.

Hins vegar skorar þingið á Alþingi að láta gera úttekt á sóknardagakerfi Færeyinga. Hvernig er staðan þar og hvernig það yrði framkvæmt á Íslandi, m.t.t. dagafjölda og úthlutun daga.

Þingið skorar jafnframt á Alþingi að beita sér fyrir því að tekin verði aftur upp
línutvöföldun / ívilnun fyrir dagróðrabáta þar sem lína er beitt í landi, t.d. einungis 80% af því sem veitt er dragist af aflamarki viðkomandi báts. Fundurinn telur að með þessu móti sé verið að stuðla að hagkvæmari nýtingu nytjastofna og tryggja trausta atvinnu í byggðum landsins. Fundurinn telur að með þessu móti sé hægt að auka útflutningsverðmæti nytjastofna.

Einnig telur þingið rétt að afnema kvótasetningu á eftirtöldum tegundum: keilu, löngu og skötusel.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024