„Alvöru“ leiksýning
Kjartan Már Kjartansson skrifar.
Föstudaginn 13. mars sl. var ég viðstaddur frumsýningu Leikfélags Keflavíkur á spennu- og glæpaleikritinu „Killer Joe“ í Frumleikhúsinu. Sýningin var mögnuð og án þess að kasta rýrð á önnur verk eða uppfærslur félagsins fannst mér leikarnir og leikstjórinn ná að taka áhugamannafélagið á næsta stig og skapa alvöru leiksýningu sem ég vona að Suðurnesjamenn láti ekki fram hjá sér fara.
Margar senurnar voru gríðarlega vel útfærðar og reyndu heilmikið á leikarana sem þurftu líklegast oft að fara út fyrir þægindahringinn sinn. Sýningin bauð uppá allt sem góð spennusaga þarf að gera án þess þó nokkru sinni að mis- eða ofbjóða áhorfendum. Glæpsamlegt plott, morð, kynlíf, dóp, ofbeldi í bland við svartan húmor náði vel að lýsa aumkunarverðum aðstæðum Chris Smith og fjölskyldu hans sem, í leit sinni að betra lífi, beita örþrifaráðum til að verða sér úti um peninga. Sagan er góð, leikurinn frábær og spennan og athyglin hélst allan tímann. Leikmynd og öll umgjörð var til fyrirmyndar s.s. ljós, hljóð, búningar, förðun o.s.frv. Ég vil óska Leikfélaginu, leikurunum fimm sem halda leik allan tímann, leikstjóranum Davíð Guðbrandssyni og öllum öðrum aðstandendum sýningarinnar innilega til hamingju um leið og ég hvet alla til þess að sjá þessa spennusögu hér á heimaslóðum.
Takk fyrir mig.
Kjartan Már Kjartansson
Bæjarstjóri Reykjanesbæjar