Álver í Helguvík: Samningur um staðsetningu undirritaður
Sveitarfélögin Reykjanesbær og Garður hafa samþykkt samkomulag um legu lóðar fyrirhugaðs álvers í Helguvík. Samkvæmt samkomulaginu verða ker- og steypuskálar álversins innan sveitarfélagsins Garðs en súrálsgeymar, skrifstofubyggingar og fleiri mannvirki verða í landi Reykjanesbæjar. Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir að álverið yrði allt í landi Reykjanesbæjar en með brotthvarfi varnarliðsins á síðasta ári opnuðust ný tækifæri til staðsetningar sem nú hafa verið nýtt. Jafnframt hafa sveitarfélögin tvö orðið ásátt um að skiptingu tekna af fasteignagjöldum sín á milli.
Ótvírætt skynsamlegasti kosturinn
Oddný Harðardóttir, bæjarstjóri í Garðinum, fagnar þessari niðurstöðu. “Fyrst og fremst er það ánægjuefni að sveitarfélögin hafa tekið höndum saman um atvinnuppbyggingu á svæðinu. Fyrir utan fjölþætt störf í álverinu sjálfu horfum við til afleiddra starfa í ýmiss konar þjónustugreinum sem reynslan sýnir að geta orðið mikil lyftistöng í atvinnulífinu. Svo er auðvitað afar mikilvægt að álverið mun rísa á stað þar sem það fer vel í landi - betur en á öðrum stöðum sem hafa verið í umræðunni. Álverinu eru þar sköpuð góð skilyrði til starfseminnar og að mínu mati er það ótvírætt skynsamlegasti kosturinn sem varð fyrir valinu. Síðast en ekki síst skipta umhverfismálin okkur miklu og allir hlutaðeigandi aðilar munu leggjast á eitt um að vanda þar til verka.”
Frá óvissu til öruggra starfa
“Það er ekki nokkur vafi á því að við völdum besta kostinn með tilliti til umhverfisins og framtíðaruppbyggingar á svæðinu,” segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar. “Á síðasta ári vorum við að upplifa stærstu hópuppsagnir í sögu þjóðarinnar, en fólk var sjálfbjarga, fann sér tímabundin störf eða sætti sig við launalækkun. Þess vegna er ákaflega mikilvægt að geta skapað 1.000 - 1.100 ný, vel launuð og örugg framtíðarstörf” segir Árni. “Við leggjum afar mikla áherslu á umhverfisþáttinn og Norðurálsmenn eru samstiga okkur í því að hér verði beitt bestu fáanlegu tækni til hreinsunar á útblæstri frá álverinu, vandað verði til útlits og umhverfishönnunar og fylgst grannt með framþróun á sviði umhverfismála.”
(Fréttatilkynning frá bæjarstjórunum í Reykjanesbæ og Sveitarfélaginu Garði)