Álver í Helguvík: Íbúar á Suðurnesjum – stöndum saman!
Álver í Helguvík er ekki einkamál Reykjanesbæjar og Garðs. Það er líka gríðarstórt hagsmunamál íbúa Grindavíkur, Sandgerðis og Voga. Álverinu fylgja svo mörg og álitleg atvinnutækifæri fyrir Suðurnesin öll, að við sem búum á svæðinu hljótum að standa þétt saman. Sérstaklega er það ábyrgð sveitarstjórnarmanna að tryggja verkefninu kröftugan stuðning á lokasprettinum.
Áætlað er að í heild skapist um 1.000 – 1.200 ný störf í tengslum við álverið í Helguvík. Miðað við reynsluna hérlendis mun mikill meirihluti starfsmanna koma frá þéttbýliskjörnum á Suðurnesjum. Þetta er líka í takti við þá stefnu Norðuráls á Grundartanga að ráða sem flest fólk til vinnu af Vesturlandi, þar sem um 80% starfsmanna koma frá nágrannabyggðum, allt frá aðliggjandi sveitarfélögum til Akraness og Borgarness. Gera má ráð fyrir að álverið í Helguvík ráði til sín fólk frá Grindavík, Sandgerði, Reykjanesbæ, Garði og Vogum og til samanburðar má benda á að styttra verður fyrir Grindvíking að sækja vinnu í Helguvík en fyrir Borgnesing sem sækir vinnu á Grundartanga.
Atvinnuöryggi á óvissutímum
Hjá álveri Norðuráls í Helguvík verða til langtímastörf, óháð sveiflum á innlendum markaði. Atvinnuöryggi verður mikið. Það skiptir máli fyrir byggðarlög sem hafa orðið hart úti atvinnulega séð með brotthvarfi Varnarliðsins og fyrirvaralausum niðurskurði á þorskkvóta.
Í öðru lagi er um fjölbreytt störf að ræða sem henta báðum kynjum. Sé miðað við álver Norðuráls á Grundartanga, mun álverið í Helguvík ráða til sín starfsfólk úr hópi rafvirkja, vélvirkja, tæknifræðinga, viðskiptafræðinga, sálfræðinga, verkfræðinga, efna- og eðlisfræðinga, líffræðinga, tölvunarfræðinga, rafsuðumanna og vélstjóra, auk ófaglærða starfsmanna sem auka verðmæti sitt á vinnumarkaði með sérhæfingu og námi hjá fyrirtækinu. Þá munu væntanlega mörg störf bjóðast við sumarafleysingar sem henta skólafólki ágætlega.
Síðast en ekki síst greiða álver hærri laun en að jafnaði í landinu. Störfin eru því eftirsótt hvort sem litið er til starfsgreina sem krefjast lítillar formlegrar menntunar, iðnlærðra eða háskólagenginna. Þessi staðreynd mun væntanlega stuðla að því að fleiri ungir Suðurnesjabúar, sem hefðu að öðrum kosti flust burt að menntun lokinni, t.d. í háskólum hér heima eða erlendis, eigi þess kost að búa áfram í heimabyggð sinni.
Lyftistöng fyrir þjónustufyrirtæki
Það verður gríðarlegur fengur að því að fá stórt og öflugt fyrirtæki á borð við Norðurál inn á atvinnusvæðið hér á Suðurnesjum. Norðurál mun ekki aðeins bjóða upp á margvísleg atvinnutækifæri í álverinu sjálfu í Helguvík. Fyrirtækið mun í ofanálag skapa nýjan eða sterkari rekstrargrundvöll fyrir margvísleg þjónustufyrirtæki á borð við vélsmiðjur, rafverktaka, tölvufyrirtæki, blikksmiðjur, verkfræðistofur, trésmiðjur, bifreiðaverkstæði, pípulagningafyrirtæki, hreingerningafyrirtæki, saumastofur, jarðvinnuverktaka, vélaleigur, flutningafyrirtæki og svo mætti áfram telja. Þannig kaupir Norðurál á Grundartanga til dæmis þjónustu og vörur af 12 verktökum í Borgarnesi og af 38 verktökum á Akranesi. Reynslan sýnir ennfremur að Norðurál lætur til sín taka í samfélaginu með stuðningi við íþrótta- og menningarlíf. Gildi slíks stuðnings má síst vanmeta.
Ég hlakka til þeirrar stundar þegar fyrsta skóflustungan verður tekin að álveri í Helguvík. Þá mun birta yfir avinnumálum hér á Suðurnesjum. Ég skora á alla Suðurnesjamenn að styðja þetta stóra tækifæri til nýsköpunar í atvinnulífi með ráðum og dáð.
Kjartan Steinarsson
framkvæmdastjóri á Suðurnesjum.