Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Álver í Helguvík
Fimmtudagur 26. mars 2009 kl. 22:02

Álver í Helguvík

- viðbrögð við grein Ólafs Thordersen

Á vef Víkurfrétta í kvöld birtist grein eftir Ólaf Thordersen, bæjarfulltrúa, þar sem fjallað er um framkvæmdir í Helguvík. Margt af því sem Ólafur segir í grein sinni er satt og rétt og ástæða til að hafa miklar áhyggjur af því að Vinstri grænir séu að ná völdum hér á landi. Þar fara einstaklingar sem alla tíð hafa lagt sig fram um að stöðva allar þær hugmyndir og verkefni sem fram hafa komið um atvinnuuppbyggingu, sér í lagi hér á Suðurnesjum. Það þekkjum við vel frá því að Bandaríkjamenn voru hér með herstöð sína og það höfum við sem störfum í bæjarstjórn orðið áþreifanlega var við þegar nýlegar hugmyndir hafa komið fram um atvinnuskapandi tækifæri m.a. í Helguvík, í verkefnum sem tengjast Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eða flugtengdri starfsemi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Þetta er áhyggjuefni sem allir kjósendur þurfa að hafa í huga þegar gengið verður til kosninga 25. apríl n.k. Ekki síður er ástæða til að hugsa til þess að það eru Samfylkingarmenn og samflokksmenn Ólafs Thordersen sem hafa lagt sig fram um að koma þessu fólki til áhrifa.
 
Sú sneið sem Ólafur beinir til sjálfstæðismanna í þessari grein er hins vegar ótrúlega ómerkileg þar sem látið er að því liggja að Sjálfstæðisflokkurinn standi gegn framkvæmdum í Helguvík. Frá upphafi hafa sjálfstæðismenn, bæði á þingi og í bæjarstjórnum, lagt sig alla fram um að vinna að framgangi mála sem tengjast orkufrekum iðnaði, þar með töldum álversframkvæmdum í Helguvík. Ef eitthvað var, þurftu Sjálfstæðismenn að ýta eftir þessum málum á meðan þeir voru í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingu.
 
Ég veit að Ólafur stendur heils hugar á bak við framkvæmdir í Helguvík eins og flestir bæjarfulltrúar en þó er rétt að fram komi að eina neikvæða röddin sem komið hefur fram í bæjarstjórn Reykjanesbæjar vegna framkvæmda í Helguvík hefur verið úr herbúðum Samfylkingar.
 
Ólafur hefur á stjórnmálaferli sínum skrifað ýmsar greinar sem okrað hafa tvímælis en þessi grein, að minnsta kosti sá hluti hennar sem snýr að sjálfstæðismönnum, er  ein sú allra ósmekklegasta. 
 
Böðvar Jónsson
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
í Reykjanesbæ