Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Alvarlegar athugasemdir sem taka verður til greina
  • Alvarlegar athugasemdir sem taka verður til greina
    Ellert Grétarsson
Mánudagur 26. janúar 2015 kl. 12:33

Alvarlegar athugasemdir sem taka verður til greina

– Ellert Grétarsson skrifar

Skipulagsstofnun hefur nú til umfjöllunar umhverfissmat vegna kísilmálmverksmiðu Thorsil í Helguvík. Sem áhugamaður um náttúruvernd og umhverfissmál hef ég kynnt mér gögn málsins og verð að segja eins og er að það setur að mér ugg. Athugasemdir þær sem settar hafa verið fram um væntanlegan útblástur frá verksmiðjunni eru það alvarlegar að Skipulagsstofnun ákvað að fá mat frá óháðum aðila og er niðurstöðu hans að vænta á næstunni. Tel ég rétt að bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ bíði með allar samþykktir og leyfisveitingar uns það álit er komið fram og Skipulagsstofnun hefur skilað sinni niðurstöðu.  Bæjaryfirvöld verða að sýna þá ábyrgð gagnvart íbúum bæjafélagsins því þetta snýst um heilsu þeirra og lífsgæði. Sérstaklega hvet ég íbúa í norðurbyggðum bæjarins til að setja sig inn í málið og taka afstöðu til þess. Það gæti verið of seint þegar þú færð drulluna inn um stofugluggann hjá þér.

United Silicon, sem þegar hefur hafið framkvæmdir við byggingu verksmiðju af sama meiði í Helguvík, setti fram mjög alvarlegar athugasemdir við umhverfismatið en umsagnarferlinu lauk fyrir áramót. Ég veit fullvel að um er að ræða keppninaut Thorsil á markaði en engu að síður eru þessar athugasemdir það vel rökstuddar á vísindalegum forsendum að þær verður að taka til greina.

Verkfræðingar og sérfræðiráðgjafi United Silicon frá Danmörku notuðu loftdreifingarforritið AIRMOD til að meta hvernig mengunarefni í útblæstri muni dreifast í andrúmsloftinu en þetta forrit hefur alþjóðlega viðurkenningu og er m.a. notað af Umhverfisstofnun Bandaríkjanna. Unnið var með veðurgögn yfir 5 ára tímabil frá Veðurstofu Íslands fyrir Helguvíkursvæðið og norðurhluta Reykjanesbæjar.



Myndin er úr mælingargögnum verkfræðinga og sérfræðiráðgjafa United Silicon og sýnir ársmeðalstyrk brennisteins í útblæstri, þ.e. samlegðaráhrif allra ef fyrirhuguð verksmiðja Thorsil bætist við.
---------------------

Þegar fyrirhugaður útblástur Thorsil var settur inn í líkanið og samlegðaráhrifin við annan útblástur metin var niðurstaðan allt önnur en sú mynd sem sett er fram í frummatsskýrslu Thorsil.  Í raun munu mengunarefni dreifast um 1.800 metrum lengra en haldið er fram í skýrslunni og ná til íbúðahverfa í norðurhluta Reykjanesbæjar og þannig langt út fyrir það þynningarsvæði sem skilgreint hefur verið vegna fyrirhugaðs álvers Norðuráls, segir í athugasemdum United Silicon.

Þá er vert að geta þess að Benoný Harðarson, fyrrverandi forstjóri HES, hefur jafnframt lagt fram athugasemdir vegna umhverfismatsins. Í þeim kemur fram að gert sé ráð fyrir töluverðri mengun vegna brennisteinsdíoxíðs frá verksmiðju Thorsil og það sé alvarlegt mál fyrir íbúa og dýr í nágrenni verksmiðjusvæðisins sem staðsett sé í aðeins um eins kílómetra fjarlægð frá íbúðabyggðinni.  Benoný bendir á að nú þegar til standi að reisa þriðju stóriðjuverksmiðjuna í Helguvík  muni mengunarálag á svæðinu aukast enn frekar. Hann telur frummatsskýrslu Thorsil ótrúverðuga m.a. vegna þess að sammögnunaráhrif mengunar séu ekki reiknuð út fyrir allar þrjár verksmiðjurnar eins og beri að gera. Svara þurfi ákveðnum spurningum er varða dreifingu brennisteinsmengunar.

Sem fyrr segir hefur Skipulagsstofnun fengið óháðan aðila frá Háskólanum til að fara yfir og meta þessi gögn.  Í ljósi þess tel ég að meiri umræða verði að fara fram um málið í bæjarfélaginu áður en leyfisveitingar fara fram og breytingar á skipulagi samþykktar.  Eðlilegast væri síðan að kynna niðurstöðu Skipulagsstofnunar sérstaklega fyrir íbúum bæjarins þegar hún liggur fyrir. Þetta er það stórt mál sem varðar heilsu og lífsgæði íbúanna að það hlýtur að vera sjálfsögð krafa að þeir séu vel upplýstir og fái tækifæri til að koma að þessari ákvörðunartöku. 

Komið hefur fram í umræðu að Helguvík sé of nálægt byggð og henti engan veginn undir alla þá stóriðju sem sumir vilja ólmir fá þangað en verksmiðja Thorsil verður þriðja stóriðjan inná svæðið.  Það er hins vegar ekkert endilega það sem íbúar í nærliggjandi byggðum vilja fá yfir sig.  Að anda að sér hreinu lofti eru nefnilega dýrmæt lífsgæði.

Ellert Grétarsson,

varaformaður

Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands.

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024