Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn í dag
Fimmtudagur 10. október 2013 kl. 11:49

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn í dag

Í  ár er yfirskrift dagsins Geðheilsa á efri árum. Dagurinn hefur það að markmiði að bæta geðheilsu fólks og vekja athygli á geðheilbrigðismálum. Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er sameiginlegur vettvangur allra þeirra sem starfa að eða láta sig geðheilbrigðismál varða.

Geðheilsa snertir daglegt líf okkar allra og er nátengt því hvernig  okkur vegnar. Geðheilsa felur í sér hvernig hverjum og einum tekst að samræma eigin þrár, metnað, getu, hugsjónir og tilfinningar að kröfum lífsins.

Rannsóknir sýna að áhersla er lögð á aukna þátttöku geðfatlaðra í samfélaginu. Athyglinni er í æ ríkari mæli beint að því að mæta þörfinni fyrir stöðuga búsetu, atvinnuþátttöku, samskipti og að viðkomandi sé hafður með í ákvörðunartöku um eigin mál. Markmiðið er að efla virkni og þátttöku einstaklingsins í samfélaginu, efla og viðhalda færni og fyrirbyggja félagslega einangrun.

Til að ná þeim markmiðum þarf að vera aðgangur að margvíslegri þjónustu, svo hægt sé að mæta mismunandi þörfum. Gott samstarf þarf einnig að vera á milli ólíkra stofnana.

Björgin – Geðræktarmiðstöð Suðurnesja hefur frá upphafi lagt áherslu á að taka vel á móti fólki og sníða þjónustuna eftir þörfum hvers og eins. Starfsemin miðar að því að rjúfa félagslega einangrun, efla sjálfstæði, draga úr stofnanainnlögnum og endurhæfa fólk til náms eða vinnu.

Í tilefni Alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins 10. október verður Björgin - Geðræktarmiðstöð Suðurnesja með kaffi, vöfflur og ýmislegt til sölu að Suðurgötu 15 frá kl. 16-18. Við vonumst til að sjá sem flesta.

Kveðja,
Hafdís Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi/forstöðumaður
Hulda Sævarsdóttir, sálfræðingur
Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir, iðjuþjálfi
Guðný Helga Jóhannsdóttir, leiðbeinandi

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024