Allt upp á borði hjá S-listanum
– Hagsmunir frambjóðenda birtir á xsreykjanesbaer.is
Við frambjóðendur S-listans munum stjórna bænum okkar á opnari og ábyrgari hátt en nú er gert og tryggja að íbúar Reykjanesbæjar séu upplýstir um stöðu bæjarsjóðs og um tengsl og hagsmuni kjörinna fulltrúa. Við göngum undan með góðu fordæmi og höfum birt upplýsingar um hagsmuni og tengsl okkar frambjóðendanna – ein allra framboða - á xsreykjanesbaer.is en þar má líka finna myndbönd með frambjóðendum og allar upplýsingar.
Skorum á aðra að gera það sama
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram tillögu að reglum um hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa í Reykjanesbæ á kjörtímabilinu sem er að líða. Samkvæmt þeim áttu bæjarfulltrúar í Reykjanesbæ að skrá hagsmuni sína og tengsl fyrir opnum tjöldum á vefsíðu bæjarins. Reglurnar yrðu sambærilegar skráningu á fjárhagslegum hagsmunum alþingismanna og trúnaðarstörfum utan þings samþykktar vorið 2009 sem finna má á althingi.is. Tillögunni var vísað til nefndar.
Við höfum nú tekið frumkvæðið og birt hagsmunaskráningu okkar frambjóðendanna á xsreykjanesbaer.is og hvetjum önnur framboð til hins saman. Við munum síðan leggja tillöguna um hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa Reykjanesbæjar aftur fram í bæjarstjórn eftir kosningar og væntum þess að hún verði samþykkt.
Aukum gegnsæi og íbúalýðræði
Við birtum hagsmunaskráningu okkar vegna þess að við teljum að íbúar eigi skýlausan rétt á að vera upplýstir um hagsmuni kjörinna fulltrúa og stöðu bæjarins. Við munum tryggja aukið gegnsæi m.a. með því að opna bókhald Reykjanesbæjar, með því að setja reglur um hagsmunaskráningu bæjarfulltrúa og með því að skerpa skilin á milli embættismannakerfis og kjörinna fulltrúa – stjórnmálamanna.
Við hlökkum til þess að móta samfélag með bæjarbúum grundvallað á virðingu, jöfnuði, lýðræði, ábyrgð og gegnsæi með fjölskylduna í fyrirrúmi á næstu árin.
Frambjóðendur S-lista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ