Allt annað en Helguvík
– Jóhann Snorri Sigurbergsson skrifar
Síðustu ár hefur mikið af umræðu um atvinnumál á Suðurnesjunum snúist um Helguvík. Það er skiljanlegt enda stærstu einstöku möguleikarnir þar sem gætu haft gríðarleg áhrif á atvinnustig og tekjur íbúa og bæjarfélagsins. Þar er gert ráð fyrir stærri iðnaði og fjölmörg verkefni eru í pípunum, komin mislangt á veg. Þeir fjármunir sem hafa verið settir í Helguvík eru ekki sokkinn kostnaður þó tekjur hafi látið á sér standa. Helguvíkurhöfn er forsenda flestra þeirra stærri verkefna sem verið er að skoða hér á svæðinu. Ég vil því segja, spyrjum að leikslokum þegar kemur að Helguvík. Góðir hlutir gerast hægt.
Á meðan umræðan hefur snúist um Helguvík gleymist oft að hér í Reykjanesbæ er eitthvert blómlegasta sprota- og frumkvöðlastarf á landinu upp á Ásbrú. Þar eru fjölmörg minni fyrirtæki og einyrkjar búnir að koma sér fyrir og vinna að hugmyndum sínum. Í svona suðupotti hugmynda er ekki bara líklegt heldur nánast öruggt að einhverjar muni vaxa og dafna og verða að frábærum fyrirtækjum. Keilir er svo hjartslátturinn á svæðinu með yfir 100 starfsmenn, á annað þúsund útskrifaðra nemenda og ört stækkandi nemendahóp. Það er of langt mál að telja upp alla þá spennandi hluti sem eru að gerast á Ásbrú en þar eru nú um 650 störf í 115 litlum og meðalstórum fyrirtækjum og stofnunum.
Líftæknifyrirtækið Algalíf opnaði örþörungaverksmiðju sina fyrir skömmu síðan. Þar hafa nú þegar skapast tæp 20 störf og þeir hvergi nærri hættir sinni uppbyggingu. Framkvæmdarstjóri fyrirtækisins hafði á orði þegar verkefnið var kynnt að jákvætt viðmót forsvarsmanna bæjarins hafði mikil áhrif á ákvörðunartöku um endanlega staðsetningu fyrirtækisins á Íslandi. Gagnaver Verne Global hefur verið í rekstri í nokkur ár á Ásbrú og er að stækka, Advania reisir nú gagnaver við Fitjar og fleiri gagnaversfyrirtæki undirbúa framkvæmdir. Á Reykjanesi hefur svo fiskeldi Stolt Sea Farm hafið starfsemi sína. Auk þess eru Háteigur og Haustak að vinna með áhugaverðar nýjungar við fullvinnslu sjávarafurða.
Þetta eru engir draumórar heldur raunveruleikinn þarna er dugmikið fólk að skapa ný störf, ný tækifæri. Þá er ótalin sú uppbygging sem hefur átt sér stað í ferðamannaiðnaðinum í bænum af öflugum framsýnum einstaklingum sem sjá tækifærin í aukningu ferðamanna. Bærinn hefur reynt að búa til segla til að draga að ferðamenn með t.d. Víkingaheimum, uppbyggingu í kringum Duus auk Hljómahallarinnar. En betur má ef duga skal og fjölmörg verkefni bíða bæjaryfirvalda til að styðja við uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins í bænum. Þar ætla Sjálfstæðismenn ekki að láta sitt eftir liggja.
Við berjumst áfram og reynum að tryggja uppbyggingu stórra mannaflsfrekra fyrirtækja í Helguvík en það er svo margt annað búið að gerast og er að gerast. Við viljum fjölbreytt atvinnulíf með fjölbreyttum og vel launuðum störfum. Við erum komin langt á síðustu árum en við erum hvergi nærri hætt.
Jóhann Snorri Sigurbergsson
frambjóðandi D-lista sjálfstæðismanna