Allir með strætó
Eysteinn Jónsson formaður Fulltrúarráðs Framsóknarfélaganna í Reykjanesbæ, benti á í ágætri grein sinni í Víkurfréttum 28. janúar s.l, þá hugmynd að kanna með strætisvagnaferðir á milli Reykjanesbæjar og Reykjavíkur. Þetta gerði Eysteinn í tengslum við þann möguleika að Alcan í Straumsvík myndi hefja ókeypis akstur fyrir sína starfsmenn hingað suður með sjó. Nú hefur bæjarráð Reykjanesbæjar vaknað til lífsins og gert þessa tillöga að sinni og er það vel, enda sama hvaðan gott kemur. Það mætti í leiðinni minnast á að sami meirihluti sá sérstaka ástæðu til að fella niður stuðning við þá námsmenn sem stunda nám við Háskólana í Reykjavík og nutu aksturstyrks eftir að tillaga Kjartans Márs Kjartanssonar bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins hafði verið sammþykkt í bæjarstjórn. Vonandi leiðir þessi athugun til þess að þessar strætisvagnaferðir hefjist sem fyrst og framsýni forráðamanna Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ sem Sjálfstæðismenn hafa nú gert að sinni komist til framkvæmda.
Brynja Lind Sævarsdóttir
Formaður FUF í Reykjanesbæ
Brynja Lind Sævarsdóttir
Formaður FUF í Reykjanesbæ