Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Allir geta bjargað mannslífi
Miðvikudagur 11. febrúar 2009 kl. 10:44

Allir geta bjargað mannslífi

Slys, áverkar og veikindi gera sjaldnast boð á undan sér.  Það getur því oltið á þeim sem eru nærstaddir, til dæmis ættingjum eða samstarfsmönnum, að veita viðeigandi aðstoð.  Skyndihjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er slösuðu eða bráðveiku fólki þar til viðeigandi læknishjálp fæst.

Til að skyndihjálp komi að gagni þarf að fara rétt að.  Rauði krossinn hefur haft forystu um fræðslu í skyndihjálp, og hefur útbreiðsla skyndihjálpar verið eitt af meginverkefnum Rauða kross Íslands í um 80 ár. Allt frá stofnun Rauða kross hreyfingarinnar í Genf árið 1863 hefur verið lögð áhersla á skyndihjálp hjá landsfélögum Rauða krossins um allan heim og námsefni og námskeiðaframboð verið í stöðugri þróun.

Rauði kross Íslands fylgir evrópskum leiðbeiningum í skyndihjálp og endurlífgun sem byggjast á alþjóðlegum vísindarannsóknum og sérfræðiráðgjöf og eru viðurkenndar um allan heim.  Félagið fylgist með öllum nýjungum og uppfærir fræðsluefni og námskeið sín eftir því sem við á.

Rauði kross Íslands býður upp á vönduð og hagnýt námskeið sem sniðin eru að þörfum almennings, fagaðila, eða starfsmanna fyrirtækja og stofnana, bæði hvað varðar lengd og efnistök. Á námskeiðunum er lögð áhersla á að kenna rétt viðbrögð í neyð og einfaldar aðferðir skyndihjálpar. Allt fræðsluefnið er gefið út af Rauða krossi Íslands.

Sé rétt staðið að skyndihjálp getur hún skilið milli lífs og dauða, skjóts bata og langrar sjúkrahússvistar, eða tímabundinnar og langvarandi fötlunar.  Allir ættu því að kunna skyndihjálp.

Deildir Rauða krossins standa reglulega fyrir skyndihjálparnámskeiðum fyrir almenning.  Þeir sem áhuga hafa á að sækja slík námskeið er bent á að hafa samband við Rauða kross deildina á sínu svæði eða fara inn á vef Rauða krossins  www.redcross.is , en þar má finna upplýsingar um öll námskeið sem eru á döfinni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024