Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Algjörlega sammála Böðvari
Þriðjudagur 29. mars 2011 kl. 22:16

Algjörlega sammála Böðvari


Böðvar Jónsson vandar mér ekki kveðjurnar í psitli sínum hér á VF. Og tekur þar fram að hann er ekki vanur að svara greinum fólks sem ekki hafi annað fram að færa en ólyndi og önugheit. En lætur hjá líða að svara þeim efnisatriðum sem ég þó setti fram í grein minni. Hvað varð um vatnsgjald það sem bæjarsjóður innhemti á síðasta ári og hversvegna það komst ekki til skila til HS Veitna? Og hversvegna þarf nú að eyða þeim arði sem út úr HS Veitum kom til greiðslu skuldar sem greiðendur vatnsgjaldsins töldu sig þegar hafa greitt? Það hefði kannski átt að vera efni greinar hans?

Böðvar veltir því fyrir sér hver tilgangur minn með greinarskrifum mínum undanfarið hafa verið. Og hvernig einstaklingur sem ég þurfi að tala allt það niður sem tengist Reykjanesbæ. Veltir því þó ekki fyrir sér að það sem ég hef vakið athygli á með greinum mínum snýr fyrst og fremst að þeirri stjórnsýslu sem undir hans forsæti hefur verið viðhaft. Það hef ég ekki talað niður heldur nefnt það eins það er. Nægir þar að nefna söluna á Hitaveitu Suðurnesja, Fasteign, skuldir hafnarinnar, stöðu bæjarsjóðs, Hjúkrunarheimilið og reyndar ótal fleiri mál. Þar hefur hvorki verið of eða van. Staðan talar sínu máli.

Annars er grein Böðvars ágætt innlegg í umræðuna þegar kemur að þeim lýðræðislegu skoðunum sem hann virðist aðhyllast. Að það sé óumflýjanleg skylda hvers manns sem í bæjarfélagi hans býr og í flokki hans er að tala upp og vera jákvæður gagnvart hverri þeirri vitleysu athugasemdalaust sem forystumönnum hans dettur í hug. Og fá bágt fyrir ella. Það er kannski meginástæðan fyrir því að ég gat ekki staldrað lengur við í flokki hans. Undir það gat ég ekki gengist.

Verandi þátttakandi í tveimur nefndum á vegum bæjarins , og öðrum samtökum hér í bænum verð ég þó Böðvari til upplýsingar segja að margir góðir hlutir eru að gerast hér. Menn eru þrátt fyrir allt að leggjast á árarnar við að reyna að vinna mörgum þeim málum brautargengis sem nú virðast við að staðnæmast. Við skulum vona að vel til takist. Það fyllir mann líka mikilli gleði og jákvæðni að fylgjast með því þróttmikla menningarstarfi sem hér á sér stað. Nægir þar að nefna magnaða revíu leikfélagsins þar sem m.a greinarhöfundur Böðvar fellur grátandi i klof sessunautar síns og félaga. Þar grætur hann sín örlög svo eftir er tekið.

Það er ekki oft sem ég get verið algjörlega sammála Böðvari Jónssyni formanni bæjarráðs en það er ég þó hvað varðar niðurlag greinar hans. Það eru nefnilega vinnubrögðin, framkoman, og viðhorfið sem ræður hvaða árangri menn ná. Um það vitnar staða Reykjanesbæjar undir hans stjórn og meðreiðasveinanna svo glöggt.

Með bestu kveðju, Hannes Friðriksson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024