Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aldrei eins mikið samráð við íbúa í skipulagsmálum
Föstudagur 18. mars 2022 kl. 07:17

Aldrei eins mikið samráð við íbúa í skipulagsmálum

Áhugi íbúa Reykjanesbæjar á skipulagsmálum hefur farið vaxandi undafarin ár sem er mjög ánægjulegt, því það er gott fyrir bæinn að sem flestir bæjarbúar komi að því að móta umhverfi okkar og hafi áhrif á hvernig bærinn þróist.

Frá 2014 hefur stefnan verið að upplýsa íbúa markvisst um skipulagsmál og auðvelda aðkomu þeirra að skipulagsvinnu – því þannig gerum við bæinn okkar einfaldlega betri. Ákveðin áskorun hefur falist í því að virkja þennan áhuga, beina athugasemdum og ábendingum bæjarbúa í skýra farvegi sem gott verklag í stjórnsýslunni og skipulagslög kalla á.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Íbúafundir um öll stærri mál

Þetta höfum við m.a. gert með því að upplýsa íbúa um skipulagsverkefni í vinnslu, t.d. með ítarlegum fundargerðum umhverfis- og skipulagsráðs með lýsandi fylgigögnum, aðgengilegum á vef bæjarins. Einnig með opnum íbúafundum þegar stór deiliskipulagsverkefni eru í auglýsingu svo bæjarbúar hafi tækifæri til þess að koma með ábendingar og athugasemdir áður en skipulagið kemur til bæjarstjórnar til lokasamþykktar.   

Þá hefur verið leitast við að tryggja sem best aðkomu bæjarbúa að endurskoðun aðalskipulags Reykjanesbæjar. Boðað var til íbúaþings í byrjun aðalskipulagsvinnunnar og í framhaldinu voru haldnir íbúafundir í öllum hverfum bæjarins þar sem gott samtal átti sér stað og góðar hugmyndir komu fram. Stýrihópur vann svo úr framkomnum hugmyndum og ábendingum íbúa og vinnslutillaga að aðalskipulaginu var kynnt í haust, m.a. með kynningarfundi í streymi á netinu. Í ferlinu öllu hafa fjölmargir bæjarbúar sent inn ábendingar og athugasemdir sem hafa skilað sér til stýrihópsins sem vinnur að endurskoðun aðalskipulagsins.

Aðalskipulagstillagan hefur tekið breytingum í öllu þessu ferli enda margar góðar hugmyndir og gagnlegar ábendingar komið frá íbúum. Tillaga að endurskoðuðu aðalskipulagi fer svo í auglýsingu fyrir lok þessa mánaðar og þá gefst bæjarbúum aftur tækifæri til þess að kynna sér skipulagið og koma með athugasemdir áður en aðalskipulagið fer fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu. Mikill kraftur verður lagður í kynningu, s.s. með kynningarfundi í Hljómahöll – sem verður líka í streymi – og íbúafundum í öllum hverfum bæjarins í framhaldinu.

Má bjóða þér í umhverfis- og skipulagsrölt 26. mars?

Það er aldrei nógu mikið rætt og spjallað um bæinn okkar að mínu mati, hvernig við viljum byggja hann til framtíðar. Því vil ég bjóða bæjarbúum í umhverfis- og skipulagsrölt um áhugaverð svæði í bænum og spjall um bæinn okkar. Fyrsta röltið á þessu ári verður um Njarðvíkurskóga laugardaginn 26. mars og hefst kl. 12.00 frá nýja hundagerðinu við grillaðstöðuna og þrautabrautina í Njarðvíkuskógum. Allir velkomnir í röltið.

Eysteinn Eyjólfsson,
formaður umhverfis- og skipulagsráðs og formaður Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ.