Aldraðir Suðurnesjamenn eiga aðeins það besta skilið!
Nú er loksins að koma að þeim tímamótum að við getum boðið okkar eldri íbúum sem þurfa á hjúkrunarheimili að halda upp á bestu aðstæður á landinu bæði í þjónustu og húsnæði. Það er með tilkomu hjúkrunarheimilis að Nesvöllum sem verður opnað í mars n.k.
Val um þann sem sér um reksturinn skiptir miklu máli, því þetta er mjög sérhæfð þjónusta í dag. Valið á sér góðan aðdraganda:
Á þessu ári ári höfum við rætt við fjóra aðila sem reka í dag eða vilja reka hjúkrunarheimili. Eftir þá frumskoðun, ákváðum við að skoða frekara val á milli Hrafnistu og HSS.
Við settum því af stað valnefnd þar sem fulltrúar allra flokka í bæjarstjórn áttu sæti, þ.e. úr Framsókn, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Þau skyldu meta HSS og Hrafnistu.
Bæði valnefnd og bæjarráð einróma sammála
Eftir vandaða skoðun á valkostunum, var það einróma niðurstaða valnefndarinnar að á milli tveggja góðra kosta bæri að velja Hrafnistu sem hefur yfir 70 ára reynslu og sérhæfingu í að reka hjúkrunarheimili.
Í framhaldinu var einnig samþykkt samhljóða í bæjarráði að ræða við Hrafnistu, en í bæjarráði sitja fulltrúar Framsóknar, Sjálfstæðis og Samfylkingar. Formlegar samningaviðræður við Hrafnistu hafa staðið frá því í sumar og ég fullyrði að þar hefur verið mjög vandað til verks.
Hrafnista hefur hæsta gæðamatið
Niðurstaðan var svona skýr vegna þess að Hrafnista „sérhæfir“ sig í rekstri hjúkrunarheimila og öll þeirra svör gáfu það afar skýrt til kynna að þau kunna þetta fag 100%. Rekstur hjúkrunarheimila Hrafnistu í þremur bæjarfélögum hefur gengið mjög vel og í góðu samstarfi við sveitarfélögin. Í Kópavogi rekur Hrafnista heimili eftir nýrri hugmyndafræði sem leggur áherslu á mjög heimilislegt umhverfi. „Lev og bo“ er hún kölluð og það mun Hrafnista innleiða hér.
RAI mat er opinbert mat, notað til að meta heilsufar og velferð til að tryggja hámarksgæði á hjúkrunarheimili. Hrafnistuheimilin eru í hópi hjúkrunarheimila sem fá hæsta niðurstöðu úr þessu mati og mun hærri en matið gefur t.d. DS heimilunum hér á Suðurnesjum. Hrafnista hefur metnað og þekkingu til að gera Nesvelli að því hjúkrunarheimili sem aðrir horfa til þegar þeir setja sér markmið í starfi hjúkrunarheimila.
Hugtakið hjúkrunar„heimili“ er mikilvægt
Mesta breytingin sem er að verða á skipulagi hjúkrunarheimila er að þau eru nú mun betur útbúin sem raunveruleg heimili fólks, allir í einbýlum og setustofur frammi með eldhúsaðstöðu fyrir 10 íbúa einingar. Þar er fólk ekki að útskrifast eins og á sjúkrahúsi til að fara heim. Það á heima þarna. Því hefur þróunin verið sú að reyna að færa heimilin frá sjúkrahúsaumhverfinu, þó aldrei á kostnað gæða umönnunar, hjúkrunar eða heilbrigðisþátta. Lögð er áhersla á litlar heimilislegar einingar með 9-11 íbúum sem starfa svo saman eins og gert verður á Nesvöllum. Við teljum okkur því hafa valið „bestu þjónustu fyrir aldraða á nýjasta hjúkrunarheimili landsins í Reykjanesbæ“.
Starfsfólk og þjónusta
EN… við stöldruðum ekki bara við spurningar um bestu þjónustuna. Við gerum okkur grein fyrir því að það þarf sérfræðinga til að innleiða „lev og bo“ hugmyndafræðina, sem ekki eru á hverju strái. En við vildum tryggja að sem flestir heimamenn héldu um störfin. Ekki aðeins störfin á Nesvöllum heldur einnig á allri framleiðslu á mat og viðhaldi í húsinu. Við vitum þó að 17% vinnandi íbúa okkar í Reykjanesbæ vinna á höfuðborgarsvæðinu og ekki myndum við vilja að þau væru útilokuð frá vinnu af því að þau væru ekki „heimamenn“ þar. En í viðræðunum við Hrafnistu tryggðum við samt að „heimamenn“ hafa forgang í ráðningum nú þegar undirbúningur að ráðningum stendur yfir. Fyrst verður starfsmönnum á DS boðin vinna, einnig rætt við starfsfólk hjá HSS, (því HSS heldur utan um 18 hjúkrunarrými til bráðabirgða á meðan Nesvellir eru í byggingu, ) þá skyldi valið matarþjónustufyrirtæki héðan og valdir iðnaðarmenn héðan til að sinna viðhaldi. Nú er Hrafnista að undirbúa slíkar viðræður.
Hrafnista í þágu íbúa Suðurnesja
Það er ekkert nema ánægjulegt að þessir reyndu aðilar, Hrafnista, sem fá hæstu einkunn af fagaðilum fyrir þjónustu sína, skuli sýna því áhuga að starfa í þágu íbúa Suðurnesja, með þeim hætti sem ég hef lýst. Ég heyrði í öldruðum sjómanni sem sagði að það væri líka ánægjulegt að Sjómannadagsráð, sem rekur Hrafnistuheimilin, skyldi sýna okkur slíkan áhuga. Það hefði eflaust ekki gleymt þekktum sjómönnum héðan og fjölskyldum þeirra. En nú býðst þessi þjónusta öllum.
Öll aðstaða sem við höfum byggt upp á Nesvöllum, félagsmiðstöðin, þjónustuíbúðirnar og nú hjúkrunarheimilið verða á við það besta sem býðst á landinu. Aldraðir Suðurnesjamenn sem þurfa hjúkrunarþjónustu eiga ekkert minna skilið!
Árni Sigfússon, bæjarstjóri