Aldraðir og málefni þeirra
Eftir langan vinnudag og mörg handtök á fólk að geta sest í helgan stein áhyggjulaust um framtíð sína og hvílt í því öryggi að það hafi lagt svo mikið inn í samfélagið að það þurfi ekki að hafa áhyggjur þó það fái til baka það sem á að vera þeirra.
Nú er það svo að við mannfólkið lifum lengur og erum mörg hver við góða heilsu. Góð heilsa er nauðsynleg bæði andleg og líkamleg til að geta notið lífsins á efri árum. Mikil fjölgun eldri borgara er því áskorun ekki bara hér á landi heldur á heimsvísu. Þessi staðreynd að við lifum lengur kallar á breytingar í viðhorfum okkar til málefna eldri borgara. Það þarf að hafa skýra stefnu, góða forystu og gera breytingar til framtíðar.
Áratugurinn 2021-2030 hefur verið helgaður málefnum aldraðra af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) sem við erum aðilar að. Hérlendis kallar þetta á skuldbindingar sem Ísland þarf að framfylgja á alþjóðavísu. Oft fela þær í sér aðgerðir sem lúta að breyttum viðhorfum í samfélaginu varðandi atriði eins og virkni og efling þátttöku eldra fólks í samfélaginu öllu. Atriði eins og stuðningur og þjónusta við eldra fólk til að geta búið heima og samþætting og efling þjónustu og að hafa hana fjölbreytta því það hentar ekki öllum það sama. Endurskoða þarf lagaumhverfið eins og kom fram í þætti Kveiks 26. Apríl sl. Að aðstandendur séu að rekast á veggi er ólýðandi skeytingarleysi, og umhugsunarvert að umræðan var ekki meiri um ástandið í fréttum eða á þingpöllunum. Í þessum þætti kom skýrt fram að afnema þurfi lög um málefni aldraða, því þau fela í sér mismun gagnvart ákveðnum hópi í samfélaginu. Það þarf að endurskoða alla stjórnsýslu sem snýr að bæði heilbrigðismálum og félagsþjónustu. Staðan er í dag þannig að það vantar heildaryfirsýn. Aldraðir hafa ekki tíma til að bíða endalaust eftir lausnum og þurfa því þeir sem eru að bjóða fram krafta sína að vera meðvitaðir um það. Það þarf að tryggja fjármuni og að þeir fari ekki í önnur verkefni þegar upp er staðið. Hver leysir þessa þjónustu hvort það er ríkið eða sveitafélag er þrætuepli sem þarf að leysa og ætti ekki að vera stóra málið hér.
Mörg trúum við því að þessi málaflokkur sé í góðum málum og rétt haldið um hlutina. En það er kannski ekki fyrr en að foreldrar okkar eldast og þurfa aðstoð og úrræði að við áttum okkur á kerfinu sem er við líði í dag og rekumst á gallana og ég vil segja getuleysið til að finna rétta úrræðið og þá sér í lagi fyrir þá einstaklinga sem geta ekki búið einir nema fá töluverða aðstoð til þess. Eins og kom fram í Kveik þá eru margir einstaklingar og fjölskyldur sem eru að hlúa að og sinna öldruðum foreldrum sínum eða ættingjum þar sem ekki eru til úrræði til að koma á móts við þarfir hvers og eins. Aldraðir eiga ekki heldur að þurfa upplifa að vera upp á fólkið sitt komið og hættan er þessi fyrir utan félagslega einangrun. Aldraðir eiga að hafa það sjálfræði og fá að njóta þeirrar virðingar að geta sjálfir valið hvernig þeir vilja haga sínum efri árum. Atriði eins og búseta, félagsskapur og starfslok eiga að vera í þeirra höndum
Málefni aldraðra er stór og dýr málaflokkur og stjórnvöld eru að reyna að spara þar við ríkisútgjöld. Því miður er það kannski allt of auðvelt því þessi hópur er ekki að fara fram fyrir Alþingishúsið að mótmæla. Mikilvægt er að samfélagið sjái þennan hóp sem fullgilda meðlimi í samfélaginu og virði þann mannauð sem það hefur að bjóða.
Skerðing réttinda í eftirlaunakerfinu er annað óréttlæti sem aldraðir þurfa að búa við og þess vegna þarf samhliða öðrum réttindum að endurskoða skattlagningu á þennan hóp, hækka framfærsluviðmið og stuðla að því að þeir geti átt áhyggjulaust ævikvöld.
Áhyggjulaust ævikvöld á að þýða það sem í orðunum býr en ekki vera bara einhver léttvægur frasi. Það á ekki að þurfa að vera skylda að sinna fólki sem hefur tekið þátt í að móta það samfélag sem við búum við í dag heldur á það að vera stolt okkar að fólkið ljúki ævikvöldi sínu með reisn og búi við öryggi. Við viljum stuðla að því að eldri borgarar í okkar sveitarfélagi séu virkir þátttakendur í samfélaginu og að á þá sé hlustað.
Guðrún Sigurðardóttir
5. Sæti á D-lista sjálfstæðismanna og óháðra