Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Aldingarður æskunnar undirbúinn fyrir vetrarhvíld
Laugardagur 10. október 2020 kl. 07:31

Aldingarður æskunnar undirbúinn fyrir vetrarhvíld

Þá þessar línur eru ritaðar er hinn fegursti haustdagur með einstakri litarskrúð. Ég horfi út í garðinn minn, lotningarfullur fyrir þeim atburðum sem eiga sér stað. Hneggið í svartþrestinum gefur til kynna, að hann sé á varðbergi yfir utanaðkomandi vá. Kettir nágrennisins ögra honum og aðrir meðbræður hans í hópi fugla eru ekki allir honum þóknanlegir. Þess á milli tínir hann aldin af greinum ilmreynisins, oft í félagsskap við aðra þresti sem fá tímabundin leyfi þá stundina. Hin ástarþrungna söngrödd sem við fáum að njóta á vormorgnum er nú lágstemmd, en bregður þó fyrir öðru hverju. Hvarvetna má líta aldin á trjám og runnum. Rósagarðurinn skartar einstöku blómum en þó aðallega aldinum, afrakstur þess að að baki er yndilegt sumar með mikilli blómgun, hefði kófið ekki lagt stein í götu okkar, hefði sumarið talist fullkomið hér sunnanlands.

Nú er sá tími þá plöntur búa sig undir vetrardvala. Þær skynja haustið löngu áður en við sjáum litarbreytingar á þeim, líklega um leið og dag tekur að stytta. Fjölærar plöntur sem  vaxa í tempraða beltinu á jörðinni þurfa að kunna undirbúa sig fyrir veturinn, annars lifa þær ekki af. Þær þurfa að mynda blóm nógu snemma svo fræin nái að þroskast og tré og runnar þurfa að flytja afurðir ljóstillífunnar í öruggari geymslu, í stofninn eða ræturnar. Þær fella laufblöðin, þó ekki fyrr en þær hafa lokað sárinu sem myndast, svo greinar og stofnar haldist ekki opnir fyrir vatnstapi. Plöntur búa yfir líffræðilegri klukku sem sólarljósið stillir af. Kerfið allt er flókið og eilífur vettvangur mannanna til að hafa áhrif á með tilbúinni birtu, hita og næringu. Haustlitadýrðin er þar ekki undanskilin. Hún er tilkomin vegna efnahópa í grænukornum blaðgrænunnar, og safabólum plöntufrumna. Á haustin skynjum við mest rauða og gula liti á blöðunum. Styrkleiki litanna er fer eftir sólaljósinu og hitasveiflum. Ef dagshiti á haustin er hár og næturhiti miklu lægri verða rauðir litir áberandi. Plantan sjálf býr yfir einnig yfir erfðaeiginleikum sem einkenna hennar haustliti.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sumarveðráttan hefur lykiláhrif

Sumarveðráttan hefur lykiláhrif á afkomu plantna næsta árs. Á þeim tíma safnar hún orku og vexti til framhaldslífs. Köld sumur, sólarlítil og rigningasöm draga úr viðgangi plantna, þær eru ver undirbúnar undir vetrahvíld og upprisu aftur að vori. Mörg slík sumur geta því riðið þeim að fullu. Eftir einstakt sumar með mikilli blómgun megum við eiga von á enn meiri fegurð í ríki náttúrunnar að sumri komanda, svo fremi náttúruöflin snúi ekki af leið.

Á vormánuðum 2019 var fengin til afnota garðspilda í skrúðgarðinum og eyrnamerkt æskunni. Hugmyndin var að kynna hana fyrir gildi ræktunar til nytsemda og upplifunnar. Málið var auðsótt enda grunnurinn hér góður, leikskólar metnaðarfullir og bæjarfélagið jákvætt. Í forsvari var Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands í náinni samvinnu við leikskólann Tjarnarsel. Þessi spilda, kölluð Aldingarður æskunnar, hefur á tímabilinu tekið miklum breytinum. Aðkoman var slík, að mikið hreinsunarstarf lá fyrir til að fá notið þess sem þegar var í lagt. Fallegur setgrágrýtissteinn verður kennileiti garðsins til frambúðar, nú merktur skjöldum í bak og fyrir. Það er töluverð vinna sem liggur í að halda slíkri spildu við. Það þarf að hreinsa burt illgresið, og verja plöntur gegn áhlaupi bæði vetur og vor. Höfundur fékk því til fulltingis Rótarýklúbb Keflavíkur til að leggja hönd á plóg, enda þar fyrir mannauður til að takast á við verkefni sem krefst líkamskrafta og hugvits. Snarrótarkögglum, arfa og öðrum illgresisplöntum hefur nú verðið þeytt í sífellt atorkusamari jeppakerru höfundar, jarðvegur bættur og plantað í garðinn haustlaukum, sumarblómum og nú í sumar 20 nýjum rósayrkjum sem öll hafa blómgast og fengið meðbyr í upphafi. Rósirnar hafa verið merktar á einfaldan hátt, en gefandi til upplýsinga fyrir áhugasama. Þau ávaxtatré sem gróðursett voru, hafa fengið sérstaka umönnun og fá hlífðarföt yfir veturinn.

Sígrænir runnar augnayndi

Við höfum fengið styrki til að sinna þessu verkefni, þar með talið  veglegan styrk úr verkefnasjóði Rótarýumdæmisins á Íslandi auk þess umhverfistyrk frá Krónunni. Á döfinni er að taka neðsta hluta garðsins til endurskipulags með því að moka þar út jarðvegshroða og setja betri í staðinn, planta síðan sígrænum runnum af ýmsum gerðum sem getur orðið mikið augnayndi, ef vel heppnast. Rótarýfélagar minntust þess á dögunum í orði og verki, að þeir eru verndarar þessa verkefnis með því að hreinsa illgresi úr garðinum, planta haustlaukum og  hengja síðan á bakhlið steinsins ofannefnda skilti, hannað af einum félaga klúbbsins þessu til áréttingar. Ætíð eru leikskólabörnin á Tjarnaseli tilbúin að leggja okkur lið við verkefnið með sínum glaðværa opna hug. Þau ljúka nú undirbúningi vetrarhvíldarinnar með gróðursetningu haustlauka, sem birta munu litskrúð sína að vori okkur öllum til dýrðar.

Konráð Lúðvíksson, læknir.