Aldarafmæli Karvels Ögmundssonar
Í dag, þann 30. september varð Karvel Ögmundsson aldargamall og þar með sá karlmaður ættar minnar sem hefur náð hæstum aldri. Uppruni Karvels er rakinn til Snæfellsnes en foreldrar hans voru þau Ögmundur Andrésson (f.5. júlí 1855) frá Einarslóni á Snæfellsnesi og Sólveig Guðmundsdóttir (f. 2. september 1873) frá Purkey á Breiðafirði. Foreldrar Ögmundar voru þau hjónin Andrés Illugason bóndi frá Ytra-Lónabæ á Snæfellsnesi (f. 12. ágúst 1810) ættaður frá Setbergssókn á Snæfellsnesi. og Sigríður Ólafsdóttir (f. 23. janúar 1813) ættuð frá Helgafellssveit. Föðurafi Ögmundar bjó á Hömrum í Setbegssókn og hét Illugi Ögmundsson (f. 1768) Kona hans var Sólveig Þorvarðardóttir. Foreldrar Sigríðar móður Ögmundar voru þau Ólafur Ólafsson og Jóhanna Eiríksdóttir sem eitt sinn bjuggu á Arnarsstöðum neðri.
Móðurforeldrar Karvels voru þau Guðmundur Sigurðsson húsmaður í Purkey (f. 24. maí 1836) og Þórunn Þorvarðardóttir (f. 1843) Þau hjónin voru dugmiklar manneskjur sem jafnan réru á opnum áraskipum við Breiðafjörð, oftast á sitt hvoru skipinu þannig að heimilinu yrði minni skaði ef annað skipið færist í sjóslysi sem þá voru nokkuð tíð. Guðmundur var ættaður úr Dalasýslu og framættir hans má rekja til prestsættar í Strandasýslu kennd við Stað í Steingrímsfirði. Þórunn var ættuð frá Fossi í Neshreppi (utan Ennis) á Snæfellsnesi. Hjónin í Purkey áttu þrjú börn og var Sólveig þeirra yngst en hin voru Hólmfríður er bjó á Hellissandi og Eggert formaður á Bakkabæ á Hellissandi (Síðar fóstri Karvels). Guðmundur og Þórunn voru í húsmennsku í Purkey á árunum 1870 - 1885.
Alls eignuðust Sólveig og Ögmundur 12 börn en þau eru: Guðlaug Svanfríður (f. 30 mars 1896),Sigríður (f. 22. júlí 1897), Einar (f. 26. febr. 1899), Kristbjörg (f. 28. sept. 1900), Karvel Línberg (f. 7. maí 1902), Karvel (f. 30. sept. 1903), Líneik (f. 18. sept. 1905), Ögmunda (f. 23. sept. 1907), Guðmundur Þórarinn (f. 9. maí 1910), Karl (f. 8. apríl 1912), Daníel (f. 19. apríl 1915), Jóhannes (f. 26. sept. 1917). Ögmundur átti tvö börn fyrir hjónaband ,hét annað þeirra Andrés en hann fluttist til Englands ungur að
árum og ílentist þar.
Á þessum árum var barnadauði mikill og það segir sína sögu um dugnað þessa hjóna að þau misstu aðeins tvö barna sinna Karvel Línberg sem dó aðeins sjö mánaða og dótturina Líneik sem dó 4 ára gömul. Hin komust öll á legg og náðu nær öll háum aldri en nú er Karvel sá eini sem eftir lifir.
Veturinn 1910 var þessari fjölskyldu mikill örlagavaldur en þá brann Hellubærinn til kaldra kola. Tildrög þessa bruna voru þau að þá um haustið hafði rekið andanefja og þótti það mikill fengur, maturinn notaður til fæðu en spikið var brætt og geymt í glerbrúsum í eldhúsinu. Síðan þegar eldur losnaði sem falist hafði aftan við hlóðarhellu í sóti þá sprungu olíusbrúsarnir og því varð eldhafið svo magnað að á skammri stundu varð húsið alelda. Ögmundi og Sólveigu tókst af miklu harðfylgi að bjarga öllum börnum sínum út úr brennandi húsunum á náttklæðum einum fata, en þau misstu allar sínar veraldlegu eigur og þar með eigið ljóðasafn Ögmundar, en hann var hagmæltur vel. Eftir brunann fluttu þau svo til Hellissands og bjuggu þar þangað til Ögmundur fórst er hann var að sækja meðul inn í Ólafsvík og var á leiðinni heim fyrir Ennið. Karveli var ungum að árum komið í fóstur hjá móðurbróður sínum Eggerti og konu hans Ingibjörgu Pétursdóttur þá aðeins 9. ára. Sólveigu tókst síðan að halda heimilinu saman með dyggri aðstoðar Einars sonar síns sem var elstur þeirra bræðra og mjög ósérhlífinn og duglegur verkmaður. Það má segja að Karvel hafi snemma fengið að kynnast fátækt og harðri lífsbaráttu aldamótakynslóðarinnar, en þeirri lífsreynslu lýsir hann á mjög sannfærandi hátt í fyrstu bók sinni Sjómannsævi. Kaflar úr þeirri bók ætti að vera skyldulesning í framhaldsskólum landsins þannig
að núlifandi fólk skilji þau hörðu lífsskilyrði sem forfeður okkar þurftu
að búa við.
Ellefu ára byrjar Karvel að róa með fóstra sínum á áraskipi og hann minntist þess að eitt sinn var barningur að ná landi. Árin sem oftast var nokkuð viðráðanleg varð allt í einu svo þung að þegar allir kraftar voru löngu þrotnir vogaði hann loks að líta til formannsins og spyrja hvort hann mætti hvílast. Fóstri hans leit þá á drenginn og sagði með þungri áherslu." Sá sem ætlar að verða sjómaður gefst aldrei upp" og áfram var barist til lendingar. Þessi tilsvör fóstra Karvels hafa örugglega verið honum haldgott veganesti á lífslaupi hans, enda hefur hann aldrei gefist upp þótt oft hafi á móti blásið á langri ævi. Fimmtán ára gamall verður Karvel formaður á þriggja manna fari sem hann átti með vini sínum Sigurði Sveini Sigurjónssyni og nefndu þeir félagar farkostinn Sigurkarfa. Þessi útgerð þeirra félaga reyndist síðar upphaf að happadrjúgum og löngum útgerðaferli Karvels.
Karvel átti ekki langri skólagöngu að fagna þarna fyrir vestan en hann var alla tíð mjög bókelskur maður og las allt sem hann komst yfir, en hafði mikið dálæti á Íslendingasögum og Biblíunni. Hann var sagður kunna nánast allt þetta lesefni utanbókar og kom það honum ávallt vel síðan að vitna í þessar bókmenntir og geta síðan talað út frá þeim við hin ólíklegustu tækifæri. Þeir sem hafa kynnst Karveli í starfi og annars við hin ýmis tækifæri undruðust stórum hvað hann gat talað og haldið glimrandi ræður blaðlaust og ávallt tengt þær ræður þeim bókmenntum sem hann hafði lesið og kunnað frá blautu barnsbeini.
Karvel þótti berdreyminn maður og dreymdi hann stundum fyrir daglegum viðburðum. Þegar hann var 12 vetra dreymdi hann í fyrsta sinn konu sem átti eftir að fylgja honum æ síðar og hét Björg. Hann dreymdi hana fyrst þannig að hún stóð og rétti honum tvær þykkar brauðsneiðar með kæfu á milli. Ég vissi að þessi draumur boðaði happog þegar þeir félagarnir réru daginn eftir fengu þeir þá stærstu lúðu sem þeir höfðu nokkru sinni augum litið. Sá sem flyðruna dró fékk auðvitað sporðinn og vaðhornin og var það kallað "ábati"og það var Karvel. Hann dreymdi Björgu sína oft eftir þetta og boðaði það alltaf happ eða góð tíðindi. Aftur á móti átti hann aðra draumkonu, Steinunni sem boðaði váleg tíðindi og þá gafst honum tími til að undirbúa sig vel. Ef hann aftur á móti dreymdi sjógang, mikla flóðhæð eða rekaþara boðaði það mikinn afla og eins það að sja bátinn milli búnka af rekaþara. Peningaseðlar voru honum alltaf fyrir góðu og eins ef hann dreymdi að einhver rétti honum silfurpeninga. Það sama gilti ef hann dreymdi sig í miklu slori eða ýmsum óþrifnaði. Aftur á móti var það vegvísir að gæftuleysi ef hann dreymdi mikið útfyrri þar sem ganga mátti þurrum fótum fram yfir vanalega fjöruborð.
Árið 1928 kvæntist Karvel Önnu Olgeirsdóttur frá Hellissandi og varð þeim sjö barna auðið, fimm dætra og tveggja sona. Konu sína missti Karvel eftir langvarandi veikindi 1959 og yngri soninn Eggert árið 1962, en hann fórst í sjóslysi við Hólmsbergið í Keflavík ásamt tveimur frændum sínum þeim Einari og Sævari Þórarinssonum (Einkasonum Þórarinns bróður Karvels).
Árið 1963 kynntist Karvel Þórunni Maggý Guðmundsdóttur (Síðar landsþekktum miðli) og bjuggu þau saman í þrettán ár og eignuðust einn son Eggert. Karvel ól upp með henni fjóra syni og eina dóttur. Eftir að Karvel hafði lokið skipsstjórnarprófi keypti hann ásamt bræðrum sínum þeim Þórarinni og Daníel bátinn Pilot, en fljótlega þurftu þeir að hugsa sér til hreyfings og fluttu til Njarðvíkur. Þangað fluttu síðar allir bræðurnir og settust þar að ásamt fleiri Söndurum af vinahópi þeirra. Það var fyrir sagt að ef einhver ókunnugur birtist í Njarðvíkum hvort þarna
væri kominn einn frá Sandi. Karvel fluttist svo alkominn Suður árið 1933 og bjó í fyrstu að Narfakoti í Innri Njarðvík en byggði sér fljótlega tveggja hæða steinhús í Ytri-Njarðvík sem hann kallaði Bjarg. Þar bjuggu einnig foreldrar mínir og þar fæddist ég ,en móðir Karvels bjó þar einnig og lést árið 1942 og var ég svo skírður Sólmundur í höfuð hennar og eiginmanns (Sól(-veig og Ög-)mundur) við hennar kistlagningu, en hún var svo jörðuð við hlið bónda síns í kirkjugarðinum á Ingjaldshóli. Í Njarðvíkum hóf svo Karvel (eða Veli eins og hann var kallaður meðal náinna vina) atvinnurekstur sinn sem spannaði alla þætti sjávarútvegsins ásamt Þóra
bróður sínum.
Þegar litið er tilbaka á þennan athafnaríka feril Karvels er það athygli vert að áratugur hans mestu athafna er kreppuáratugurinn á milli 1930-1940,eða einmitt sá tími sem reynst hefur íslenskum sjávarútvegi hvað verst. Samfara uppbyggingu og rekstri hinna umfangsmiklu fyrirtækja þeirra bræðra þá gaf Karvel sér nægan tíma til að sinna hinum ýmsu félagsstörfum.
Það má segja að það hafi verið lán Suðurnesjamanna að fá þessa harðduglegu Sandara í sínar raðir sem tóku virkan þátt í öllu félagsstarfi á svæðinu.
Árið 1953 var Karvel forsvarsmaður þess að Útvegsmannafélag Keflavíkur væri stofnað og var formaður þess fyrstu 18 árin. Síðar var hann meðstofnandi Vinnuveitindafélags Suðurnesja og formaður þess fyrstu 10 árin. Þá stofnuðu útgerðamenn Olíusamlag Keflavíkur undir forystu Karvels og var hann einnig formaður þess frá stofnun, samfellt í 30 ár.
Keflavík og Njarðvík voru sameiginlegt sveitafélag frá 1908 til 1942 og hét það Keflavíkurhreppur. Hreppsnefndina skipuðu 3 fulltrúar frá Keflavík og 2 frá Njarðvíkunum. Karvel var kosinn sem annar fulltrúi Njarðvíkinga í hreppsnefnd Keflavíkurhrepps. Á árinu 1941 beitti Karvel áhrifum sínum til að stofna sérstakt sveitarfélag í Njarðvík, en á þeim tíma var íbúatalan þar 278. Meirihluti þeirra undirritaði skjal þess efnis að Njarðvík yrði sjálfstætt sveitarfélag og gekk það eftir. Karvel var svo fyrsti oddviti Njarðvíkurhrepps 1942 og gegndi því embætti næstu 20 árin.
Lýðveldisárið 1944 beittu hjónin að Bjargi sér fyrir stofnun Ungmenna - og kvenfélags Njarðvíkur ásamt því að útvega félagslega aðstöðu í "Krossinum" sem svo var nefndur.Krossinn var svo þekktur skemmtistaður Suðurnesjamanna . Orðið "kross" kemur af því að þetta var hersjúkrahús á stríðsárunum (Red Cross). Hér gegndi Karvel gjaldkeraembætti Ungmennafélagsins, en kona hans Anna var svo fyrsti gjaldkeri Kvenfélagsins. Karvel var meðstofnandi Rotaryklúbbs Keflavíkur þann 2. nóv. 1945 og gegndi mörgum trúnaðarstörfum innan hans og forseti félagsins á árunum 1950 - 1951. Jafnhliða hreppsnefndarstörfum í 24 ár þá gegndi Karvel margvíslegum trúnaðarstörfum í þágu Sjálfstæðisflokksins og um tíma var hann formaður flokksins í Keflavík.
Hann beitti sér fyrir stofnun Sjálfstæðisfélags í Njarðvíkum og var fyrsti formaður þess. Hann var í framboði til Alþingis, en tókst því miður ekki að ná kjöri enda voldugur maður þar sem Ólafur Thors var í fyrirrúmi. Karvel var í stjórn Landshafnar um árabil og í stjórn Sjúkrahúss Keflavíkur, en auk þess veitti hann fjölda stofnanna forsæti. Hann hefur einnig gegnt fjölda trúnaðarstarfa í þágu Samvinnuhreyfingarinnar og frá stofnun stórfyrirtækja S.Í.S eins og Olíufélagsins h.f. og Samvinnutrygginga hefur hann setið í stjórn þeirra. Það var oft sagt um Karvel frænda að hann hafi í hjarta sínu verið samvinnuhreyfingamaður þótt hann hafi þjónað Sjálfstæðisflokknum dyggilega alla tíð. Sem dæmi um hvað Karvel var umburðarlyndur stjórnmálamaður, þá var sögð sú saga þegar fyrrverandi tengdasonur hans Áki Gräns spurði hann einhverju sinni af hverju hann treysti sumum andstæðingum sínum í pólítík fyrir trúnaðarstörfum. Karvel svaraði um hæl. "Það eru góðir menn í öllum flokkum".
Á sumardaginn fyrsta 1946 var enn eitt þarfafélagið stofnað og það að tilhlutan Karvels en það var barnastúkan Sumargjöf. Stúkustarf var eitt af hinum virku áhugamálum Karvels því hvorki áfengis né tóbaks hefur hann neytt um ævina. Barnastúkunni Sumargjöf helgaði Karvel krafta sína með því að vera gæslumaður hennar um 15 ára skeið, en hann var einnig formaður áfengismálaráðs í Gullbringusýslu um árabil. Karveli hefur hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu almennings og hins opinbera eins og Fálkaorðu með meiru. Hans eigið bæjarfélag hefur gert hann að heiðursborgara og Sjálfstæðisflokkur og Ungmennafélag Njarðvíkur hefur einnig gert hann að heiðurfélaga. Mér finnst svona eftir á að hyggja að Reykjanesbær ætti að hlutast til um að gera Bjarg að Karvelssafni í samráði við ættingja Karvels ,en þar væri að finna hluti úr lífi hans og tengingar við samferðamenn. Það væri raunar verðugur minnisvarði um frænda minn Karvel Ögmundsson, sem svo sannarlega markaði spor sín á Suðurnesjum.
Þegar litið er tilbaka yfir lífsskeið Karvels þá er það með ólíkindum hvað þessi maður hefur fengið áorkað, en við sem þekktum Karvel vitum að galdur hans var hlýleg framkoma, umburðarlyndi , persónuleg útgeislun , mannþekking sem hann sótti í biblíuna og Íslendingasögurnar og það að hann gaf sér tíma til að hlusta og gefa ráð. Hver kannast ekki við orðin "væni minn" sem hann notaði við mörg tækifæri og gat slegið nær alla andstæðinga sína út af laginu með kurteisi og vinalegri framkomu. Þessi virti maður en nú orðinn þrotinn að kröftum og dvelur á Garðvangi á Suðurnesjum við góða umönnun, en við sem þekktum hann munum halda nafni hans á lofti um ókomna tíð , þakka honum allt og minnast þess. Deyr fé, deyja frændur en orðstír mun að eilífu lifa.
Lifðu heill frændi.
Sólmundur Tr. Einarsson.