Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Akurskóli - skóli í uppbyggingu
    Nemendur Akurskóla.
  • Akurskóli - skóli í uppbyggingu
Mánudagur 20. október 2014 kl. 09:44

Akurskóli - skóli í uppbyggingu

Sigurbjörg Róbertsdóttir skrifar.

Akurskóli í Innri-Njarðvík er á sínu tíunda starfsári. Þegar skólastarf hófst haustið 2005 voru um 80 nemendur í skólanum en í dag eru þeir um 460. Innri-Njarðvík er hverfi í uppbyggingu og þjónar skólinn tveimur hverfum, Tjarnarhverfi og Dalshverfi. Á meðan Dalshverfi byggist upp og ekki hefur verið ráðist í byggingu nýs skóla í því hverfi er eðlilegt að nokkur fjölgun nemenda verði í Akurskóla. Við í Akurskóla fundum fyrir þessu í haust þegar fjölgun nemenda í skólanum á milli skólaára var um sextíu.
Bæjaryfirvöld hafa brugðist mjög hratt og vel við þessari öru fjölgun nemenda. Tveimur lausum kennslustofum hefur verið komið fyrir á skólalóðinni ásamt því að smíðastofu hefur verið skipt upp í smíðastofu og almenna kennslustofu. Báðar þessar aðgerðir heppnuðust mjög vel og nú fer vel um alla 460 nemendur og 70 starfsmenn Akurskóla.

Akurskóli byggir á hugmyndafræði opinna skóla og rúmar hvert kennslurými skólans 65-75 nemendur. Auk þess eru í skólanum fjórar „hefðbundnar“ kennslustofur ásamt vel búnum list- og verkgreinastofum.
En skóli er ekki einungis bygging og fín húsgögn. Líðan nemenda, ánægja þeirra með skólann, viðhorf foreldra og ánægja starfsmanna segir mikið um starfsemina sem fram fer í byggingunni.
Á hverju ári fara fram víðtækar kannanir í skólanum. Nemendur, foreldrar og starfsmenn skólans eru spurðir út í vellíðan, árangur og ánægju.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Undanfarin tvö ár hefur Akurskóli komið afar vel út úr þessum könnunum. Nemendur skólans eru rétt yfir meðaltali í vellíðan í skóla og tíðni eineltis er nokkuð undir meðaltali landsins. Þá telja nemendur Akurskóla sig eiga í betra sambandi við kennarann sinn en almennt gerist, samsama sig betur nemendahópnum og taka virkari þátt í tímum en meðalnemandi á landinu.

Þegar foreldrar eru spurðir um skólann kemur í ljós að þeir eru mjög ánægðir með stjórnun skólans og ánægja þeirra marktækt hærri (7,2%) en meðaltal á landsvísu. Þeim finnst hæfilegur agi í skólanum, eru sértaklega ánægðir með eineltisáætlun skólans, úrvinnslu eineltismála og hraða í vinnslu mála sem upp koma.

Þegar starfsmenn skólans eru spurðir þá er viðhorf þeirra til skólans almennt mjög gott. Þeir eru mjög ánægðir með starfsaðstöðu sína og stjórnun skólans og eru þar marktækt (1,1%) yfir landsmeðaltali.
Allar þessar niðurstöður má sjá í sjálfsmatsskýrslu skólans sem finna má á heimasíðunni hans.
Á næsta skólaári stefnir í að aftur verði fjölgun í Akurskóla. Við erum að útskrifa 32 nemendur úr 10. bekk og búumst við um 55 nemendum í 1. bekk. Þetta kallar á aðgerðir og eru þær nú í undirbúningi hjá bæjarfélaginu eftir tillögur frá öllu skólasamfélaginu, starfsmönnum Akurskóla, stjórnendum og foreldrum. Rétt viðbrögð eru að gera áætlanir um umbætur en ekki að tala skólastarf niður með röngum upplýsingum.
Ég vil þakka foreldrafélagi Akurskóla fyrir málefnalegan kaffihúsfund um stöðu skólans miðvikudaginn 8. október. Ég fékk þar gott tækifæri til að hitta foreldra og spjalla við þá um það sem brann á þeim og snertir skólastarfið.

Sigurbjörg Róbertsdóttir
Skólastjóri Akurskóla