Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ákall til íbúa á Reykjanesi frá frambjóðenda nr. 5229 til stjórnlagaþings
Miðvikudagur 17. nóvember 2010 kl. 09:08

Ákall til íbúa á Reykjanesi frá frambjóðenda nr. 5229 til stjórnlagaþings

Ágætu Reykjanesbúar.

Ég leita eftir stuðningi ykkar til setu á stjórnlagaþingi. Um þar næstu helgi fer fram kosning til setu á stjórnlagaþingi þar sem fulltrúar okkar munu takast á hendur það mikla verk að koma saman og gera tillögu að nýrri stjórnarskrá sem öll þjóðin getur síðan sameinast um í kosningum. Núverandi stjórnarskrá er barn síns tíma og eins og allir vita ákaflega brothætt og illa farin. Það ríður því á að vandað sé til verka og að þjóðarsálin fái að leggja sitt innlegg í og búa til stjórnarskrá sem er okkur, sem nú byggjum landið og börnum okkar til framtíðar, sómi og skjöldur.
Ég leita því eftir ykkar stuðningi til að styðja mig til setu á stjórnlagaþinginu.
Eflaust spyrð þú „ því ætti ég að styðja þig“?

Það getur oft verið ærið að reyna að mikla eða gera gott úr sínu eigin ágæti, en ég ætla samt að reyna !
1.    Ég er ekki háður einum né neinum stjórnmálaflokki og er því algjörlega óskuldbundin þeirra hugmyndum.
2.    Ég tel mig nokkuð réttsýnan mann, með töluverða lífsreynslu sem mótast hefur vegna þátttöku minnar í fjölbreyttum störfum í okkar samfélagi. Má þar nefna að ég hef verið sjómaður, verkamaður, unnið verslunarstörf, var 8 ár í sveit sem unglingur, tekið þátt í fjölbreyttum félagsstörfum, komið nálægt rekstri til margra ára, o.s.f.r.
3.    Ég hef búið víða á Íslandi, ( Akranesi, Seyðisfirði, Selfossi, Eyrarbakka, Vestmannaeyjum, Reykjavík, Keflavík og Garði ) og þekki því vel til þess að búa annarstaðar en í höfuðborg landsins.
4.    Ég hef töluverða menntun, eða um 12 ár við framhaldsskóla, sem og ýmsa aðra staðgóða menntun sem ég hef sótt hér og þar.
5.    Ég er giftur frábærri konu sem stutt hefur mig í blíðu og stríðu og eigum við orðið 8 barna börn, sem ég vil að fái tryggingu fyrir að stjórnarskrá þessa lands verði þeim til stuðnings og framdráttar í framtíðinni.

Þessar áherslur hef ég sem veganesti nái ég með þínum stuðningi inn á stjórnlagaþing:


1.    Ég vil tryggja að alþjóðlegir mannréttindasáttmálar verði virtir og tryggðir í stjórnarskránni.
2.    ... að þrískipting valds verð komið á og bundin í stjórnarskrá.
3.    ... að tryggt sé að seta í æðstu embættum verði takmörkuð við tvö kjörtímabil, hverju sinni.
4.    ... að skerpa á og taka af allan vafa er varðar trúmál.
5.    ... að málskotsréttur forseta verði rækilega tryggður í stjórnarskránni ( enda hefur hann sannað sig svo rækilega – ég býð ekki í ef hann hefði ekki nýtt hann t.d í Icesave málinu sem þvinga átti fram á þingi ! ).
6.    ... að embætti forseta verði rækilega skilgreint.
7.    ... að öll mál þar sem forseti nýtir málskotsrétt fari beint í þjóðaratkvæði.
8.    ... að viss fjöldi atkvæðabærra manna geti kallað mál í þjóðaratkvæði.
9.    ... að auðlindir þjóðarinnar verð skýlaust í eigu hennar sjálfrar og þar komi fram algjört bann við nokkurskonar framsali .
10.    ... að í stjórnarskrá komi það skýrt fram að allir eigi jafnan rétt til náms, heilbrigðisþjónustu, samgangna, og séu jafnir gagnvart lögum landsins.
11.    ... að Ísland lýsi yfir að það verði herlaust að öllu leiti.
12.    ... að landið verði gert að einu kjördæmi og að öll greidd atkvæði hafi jafnt vægi.
13.    ...að þingmannafjöldi á þingi verði miðaður við höfðatölu hverju sinni, og að bakvið hvert þingsæti séu 10.000 – 15.000  manns .
14.    ... að í stjórnarskránni sé tryggt að öll lög sem alþingi setur skuli vera svo auðskilin og yfir allan vafa hafin, og að ef sú staða komi upp að  margtúlka megi lög frá þinginu í dómsmeðferð, verði lögunum aftur vísað til þingsins og ambögur þeirra löguð.
15.    ... að stjórnarskráin taki af skarið og banni kynjamun í einu og öllu er varðar m.a atvinnuþátttöku, laun, menntun eða aðra þætti er varðar fólk almennt.
16.    .. að í stjórnaskránni skuli tryggt að á 4 til 8 ára fresti fari fram þjóðarfundur, sambærilegur og komið hefur verið á fót nú. Og að þing næstu ára á eftir, verði að nota það sem frá þjóðþingi komi sem leiðbeinandi plagg í störfum sínum fram að næsta þjóðþingi.

Ýmisleg önnur mál mun ég leggja áherslu á s.b , landareign, búseturétt, tungumál, grunnframfærslu, landbúnaðarmál, menningarmál o.fl. sem átt getur erindi inn á svona þing sem stjórnlagaþing er.

Að lokum árétta ég, að ég leita til ykkar allra sem hér búið á Reykjanesinu að styðja mig ( 5229 ) til setu.

Um leið vil ég minna ykkur einnig á að þrír aðrir íbúar hér af Reykjanesinu eru einnig í framboði, og það er mikilvægt að við styðjum þau líka. Því í ljós hefur komið eftir að framboð komu fram að óeðlilega lítið er af framboðum frá fólki utan Reykjavíkur kjarnans.

Virðingafyllst,
Guðmundur R Lúðvíksson
5229

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024