Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Þriðjudagur 8. apríl 2003 kl. 18:22

Áhyggjur Hjálmars

Þau voru skrítin skrif Hjálmars Árnasonar í síðasta tölublaði Víkurfrétta. Þar ásakar hann Samfylkinguna um skítkast á framboðsfundi sem haldinn var í Sandgerði fyrir skömmu. Undirritaður var framsögumaður fyrir Samfylkinguna á umræddum fundi og var upplifun mín á honum með öðrum hætti en Hjálmars.Fundurinn var haldinn af Þ-listanum í Sandgerði ( ekki S-listanum, eins og Hjálmar nefndi í grein sinni) og var fundarformið hefðbundið framboðsfundaform, fyrst voru framsögur og síðan fyrirspurnir úr sal sem framsögumenn svöruðu.

Fundurinn fór vel fram, en eins og stundum gerist þá hitnaði fyrirspyrjendum mismikið í hamsi við svör eða svaraleysi frambjóðenda við fjölmörgum fyrirspurnum sem fram komu á fundinum. Ég kannast ekki við að hafa ráðist að neinum frambjóðanda á fundinum með skítkasti eða ráðist að Guðna Ágústssyni með meiðandi hætti, eins og Hjálmar lætur liggja að í grein sinni. Ef það, að ræða málefnalega um störf ríkistjórnarinnar eða einstakra ráðherra hennar er ósæmilegt að mati Hjálmars, þá hlýtur eitthvað mikið að vera að þeim störfum eða embættisfærslum sem rætt var um.

Skrif eins og þau sem Hjálmar setti frá sér bera merki taugaveiklunar í aðdraganda kosninganna. Hann tekur skýrt fram í greininni að hann hafi ekki áhyggjur af Guðna eða Framsóknarflokknum vegna umræðna á fundinum og því hlýtur að vakna sú spurning hvers vegna greinin var þá yfirhöfuð skrifuð? Getur verið að Hjálmar telji það þjóna hagsmunum sínum að sverta frambjóðendur og stuðningsmenn Samfylkingarinnar með því að væna þá um skítkast? Lítið leggst fyrir kappann.

Guðni Ágústsson tók það skýrt fram á fundinum að hann teldi ekki eðlilegt að fáir útvaldir hefðu fengið milljarðakróna verðmæti í hendur með úthlutun gjafakvótans, samt styður hann óbreytt kerfi í fiskveiðistjórn. Er eitthvað undarlegt að mörgum fundarmanninum hafi þótt þetta eftirtektavert og skrítið?

Núverandi Landbúnaðarráðherra hefur líkt afköstum forvera síns í embætti við hraða snigilsins, en bregst ókvæða við þegar farið er yfir hans afköst í embætti og þá stöðu sem bændur eru nú í. Það þarf ekki Samfylkinguna til að benda á fátæktarkjör margra bænda eftir starf Guðna í Landbúnaðarráðuneytinu, Búnaðarþing gerði það svikalaust á sínu síðasta þingi.

Það er von mín að kosningabaráttan snúist um málefni ekki síður en menn, en erfitt er að sjá hvernig umrætt inlegg Hjálmars stuðlar að því. Höldum haus í baráttunni framundan og förum ekki á taugum í því flóði skoðanakannana sem á okkur skellur.

Jón Gunnarsson
Skipar 4. sætið á framboðslista
Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024