Áhersla á þroska einstaklingsins
Júdódeild UMFN
Fyrri hluti.
Árið 1997 gaf Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) út skýrslu þar sem mælt var með því að sérhæfing í íþróttum eigi ekki að eiga sér stað fyrr en eftir 10 ára aldur. Í hinum fullkomna heimi ættu öll börn að stunda fjölbreyttar íþróttir fram að 10 ára aldri, þannig að þau geti þroskað með sér líkamlega færni á sem flestum sviðum. Góður þjálfari gerir sér grein fyrir að börn hafa ekki alltaf tækifæri á að vera í mörgum íþróttum. Hann ætti því að kenna þeim fjölbreyttar æfingar svo að börnin í félaginu nái að þroska með sér fjölbreytta hæfni sem gefur þeim breiðan grunn.
Gott júdófélag sér til þess að börnum, yngri en 10 ára, sé ekki einungis kennt júdó. Til dæmis má æfa fimi, jafnvægi og samhæfingu sem hafa ekkert með júdó að gera eins og að kasta, grípa og sparka bolta o.s.frv. Þetta ætti að vera gert til að börnin fái tækifæri til að þjálfa upp sem flesta líkamlega þætti sína. Sem foreldri ættir þú að geta séð barnið þitt framkvæma færni úr mörgum íþróttagreinum, og þróa líkamsvitund sína í júdótímum. Ekki kannski alltaf, en jafnt og þétt yfir æfingatímabilið. Við viljum að öll 10 ára börn, sem hafi verið að æfa júdó í einhvern tíma, geti hoppað, hlaupið, sippað, stokkið, kastað, gripið, sparkað, rúllað sér og auk þess að hafa öðlast grunnfærni í Júdó eins og t.d. fallæfingar, kollhnýs, grunnköst og fastatök.
Í íþróttum almennt ætti áherslan aðallega að vera á að þroska einstaklinginn frekar en að búa til meistara. Sem foreldri, vilt þú að öllum líkindum að júdóþjálfarinn og félagið sé ekki einungis að þroska barnið þitt sem júdómann, heldur sé hann og félagið líka að þroska barnið sem einstakling. Við æfingar og keppni ungra júdóiðkennda, er aðal áherslan lögð á jákvæða upplifun sem ýtir undir heilbrigðan lífsstíl. Til dæmis eru æfingar framkvæmdar í formi skemmtilegra leikja til þess að börnin fái jákvæða upplifun af æfingunum. Þetta aftur á móti verður til þess að æfingarnar verði hluti af lífi barnsins og stuðli að heilbrigðari lífsstíl.
Guðmundur Stefán Gunnarsson, aðalþjálfari hjá Júdódeild Njarðvíkur