Aftengdir Suðurnesjamenn
Það má vissulega segja að Suðurnesjamenn hafi verið aftengdir í mörgum málum eftir bankahrun. Við erum aftengd í atvinnulífinu og hvorki stjórnvöld eða aðrir tengdir aðilar vilja t.d. tengja álverið í Helguvík nema eigendur þess. Við megum helst ekki tengja atvinnutækifæri á gamla varnarsvæðinu því það væru sennilega allt óvinir ríkisstjórnarinnar sem þar ættu hlut að máli nema kannski hjá Keili sem þó hefur átt erfitt uppdráttar varðandi eðlilega fjárveitingu. Eitt af góðum verkum sem þingmenn Suðurnesja unnu að var lýsing á Reykjanesbrautinni áður en Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut með almenning á Suðurnesjum með sér í liði, keyrði í gegn að brautin yrði tvöfölduð. Ekki í neinu máli á seinni árum hefur kraftur almennings á Suðurnesjum skilað jafn miklu og í því máli. Nú skal hins vegar lýsingin aftengd að helmingi og helst taka ljósastaurana. Næst hlýtur hin frábæra Vegagerð að finna meiri sparnað en upp á 10 millj. króna á ári með því að aftengja helminginn af sjálfri brautinni. Þá er minna sem þarf að salta og vesenast á þessari tvöföldu þjóðbraut. Þar næst verður örugglega slökkt alveg á lýsingunni en kannski kveikt þegar ráðherrar ríkisstjórnarinnar fara í flug. Ögmundur ráðherra eyddi ekki nema einni milljón þegar hann fór á ráðstefnu um samgöngumál í Mexíkó fyrir stuttu. Hann átti erfitt með að svara hversu mikilvæg ráðstefnan var en reyndi þó með litlum árangri að klóra yfir skítinn. Ferðakostnaðurinn hjá ráðherra samgöngumála og Vegagerðarinnar nálgast á einu ári sennilega kostnaðinn við að lýsa Reykjanesbrautina.
Nú spyr maður. Hvað næst? Verður slökkt á rafmagninu á sjúkrahúsinu um helgar? Þetta er nefnilega fjórða árið í röð þar sem þar er skorið niður. Munu sjúklingar á HSS þurfa að fá mat frá ættingjum og taka kerti með sér til að komast um ganga sjúkrahússins. Það er fátt sem kemur orðið á óvart hjá velferðar- og skattpíningarríkisstjórninni sem nú situr við völd. Um 70% þjóðarinnar vill aftengja hana skv. nýlegri skoðanakönnun. Er nokkur furða?
Páll Ketilsson, ritstjóri