Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Áfram veginn - saman
Aðsend grein frá Páli Val Björnssyni, þingmanni Bjartrar Framtíðar
Sunnudagur 21. ágúst 2016 kl. 06:00

Áfram veginn - saman

Í síðustu viku sat ég fund í Duus húsum ásamt fleiri þingmönnum Suðurkjördæmis og tveimur ráðherrum þar sem hópurinn „Stopp hingað og ekki lengra“ kynnti okkur áherslur sínar og áform. Fundurinn var mjög gagnlegur og upplýsandi og eins og við var að búast ríkti alger samstaða um að í þessum málaflokki, samgöngum og umferðaröryggismálum á Suðurnesjum, verði að fara að taka til hendinni. Tilefni stofnunar þessa samstöðuhóps kom ekki til af góðu en hið hörmulega banaslys á mótum Hafnavegar og Reykjanesbrautar þann 7. júlí síðastliðinn gerði það að verkum að fólki var nóg boðið. Og lái þeim hver sem vill. Eitt banaslys er einu banaslysi of mikið.

Hópurinn fór fram á að aukafjármagn væri strax sett í nauðsynlegar framkvæmdir við hringtorg á vegamótum Aðalgötu og Reykjanesbrautar annars vegar, og á vegamótum Flugvallarvegar/Þjóðbrautar og Reykjanesbrautar, hins vegar. Allir voru sammála um að þær framkvæmdir þyldu enga bið og þær yrðu að hefjast í síðasta lagi í nóvember á þessu ári.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það skal enginn efast um hug minn í þessu máli og ég styð heilshugar að ráðist verði í þessar framkvæmdir sem fyrst. Á sama tíma er ég samt svolítið hræddur um að það gæti reynst snúið að fjármagna framkvæmdirnar. Þá ályktun dreg af þeirri staðreynd að í Samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sem lögð var fram í vor er hvergi að finna fjárveitingar í þessi hringtorg en þess ber þó að geta að eftir á að samþykkja þessa áætlun.  Þeim finnst heldur ekki staður í Fjármálaáætlun til næstu 5 ára, né heldur að auka eigi fjármagn í samgöngumál. Vonin er sú að hægt verði að fá fjármagn í þetta á fjáraukalögum í haust eða vetur. Vel má þó vona að hlutirnir breytist og við þingmennirnir munum ekki liggja á liði okkar við að koma þessu á rekspöl.

Ég vil að lokum þakka aðstandendum hópsins „Stopp hingað og ekki lengra“ fyrir fundinn og þeirra framlag og áhuga, þarna fer fólk sem veit hvað það syngur og það er stórkostlegt að sjá þann eldmóð sem rekur þau áfram. Svona á að gera hlutina og svona gerast hlutirnir, það eru gömul sannindi og ný að með samstöðu, samlíðun og samvinnu er hægt að flytja fjöll.
 

Páll Valur Björnsson, þingmaður Bjartrar framtíðar