Áfram unnið að velsæld barna
Í Suðurnesjabæ hafa bæjarstjórnarmenn unnið að markvissum aðgerðum til að stuðla að velsæld barna í samfélaginu. Ein af mikilvægustu breytingunum var aukning niðurgreiðslu á máltíðum nemenda í grunnskólum bæjarins, sem hækkaði úr 50% í 60%. Þar að auki var fjölskylduafsláttur innleiddur um síðustu áramót. Svo nú 1. ágúst verður ennþá stærra skref stigið þegar öll grunnskólabörn á landinu fá gjaldfrjálsan hádegismat, sem mun gera það að verkum að þau fá jafnari aðgang að næringu og orku. Þessar aðgerðir eru ekki einungis hagkvæmar fyrir einstaka fjölskyldur heldur styrkja þær líka samfélagið í heild.
Bæjarstjórn hefur einnig unnið markvisst að öðrum málum sem snerta börn og barnafjölskyldur. Þar má nefna að hækkaðar hafa verið umönnunarbætur fyrir foreldra sem ekki nýta dagvistun hjá dagforeldrum. Sú upphæð hækkar úr 45 þúsund krónum í 100 þúsund fyrir hvern mánuð. Greiðslunum er háttað þannig að fyrsta greiðsla er að loknum réttindum til fæðingarorlofs og greiddar þar til barn fær inngöngu í leikskóla eða verður tveggja ára. Hér er skref tekið til að brúa bilið sem oft kemur til eftir að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær inngöngu í leikskóla. Mikilvægt er að gera foreldrum kleift að vera heima með börnum sínum fyrstu tvö árin ef þau kjósa svo og er þetta mikil framför í þeim efnum. Þá er niðurgreiðsla dagvistargjalda hjá dagforeldrum hækkuð. Eftir að barn hefur náð átján mánaða aldri er niðurgreiðsla hækkuð úr 80 þúsundum í 112 þúsund á mánuði m.v. átta klst. vistun þar til að barni verður boðin innganga í leikskóla. Allt eru þetta mikilvægir þættir í því að styðja við barnafjölskyldur og á sama tíma, eins og hefur komið fram, brúa bilið sem oft reynist erfitt eftir að fæðingarorlofi lýkur.
Það er okkur gríðarlega mikilvægt sem samfélagi að stíga þessi skref til að styðja við foreldra fyrstu árin með börnum sínum. Þessar aðgerðir styðja við barnafjölskyldur og hafa jákvæð áhrif á samfélagið í heild. Við í Framsókn erum stolt af þessum breytingum og höfum lofað að halda áfram að stuðla að því að í Suðurnesjabæ sé gott að búa. Með þessum aðgerðum hefur bæjarstjórnin skapað umhverfi sem stuðlar að velsæld barna í Suðurnesjabæ.
Frístundaakstur milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti um áramót að hefja frístundaakstur milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ. Frístundaakstur er fyrir unga iðkendur sem þurfa að fara á milli byggðarkjarna til að sækja íþróttaæfingar. Í málefnasamningi B- og D-lista kemur fram að „komið verði á frístundabíl til að efla og auka möguleika barna í sveitarfélaginu á íþrótta- og tómstundaiðju“. Frístundaaksturinn fer mjög vel af stað og er honum ætlað að efla íþróttastarf í sveitarfélaginu til framtíðar.
Sumarfrístund fyrir elstu börn leikskóla
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar nú í maí var samþykkt að hefja sumarfrístund fyrir elstu börn leikskóla eftir að fræðsluráð bæjarins tók til umfjöllunar að leita leiða fyrir börn sem ljúka leikskólagöngu sinni á vorin og eru á leið í grunnskóla. Flest leikskólabörn ljúka leikskólagöngu fyrir sumarfrí og koma ekki aftur til baka, en alltaf eru einhverjir foreldrar sem nauðsynlega þurfa að leita að vistun fyrir þau á meðan þau bíða eftir byrjun grunnskólans. Þetta er vegna þess að fríið sem þessi börn njóta er mun lengra en hefðbundið sumarfrí vinnandi foreldra. Öllum börnum sem eru á leið í fyrsta bekk er gefinn kostur á að sækja um að taka þátt í sumarfrístund eftir verslunarmannahelgi. Sumarfrístundin verður í boði frá 6. ágúst til 21. ágúst 2024 sem reynsluverkefni og verður spennandi að sjá hvernig hún kemur út.
Atvinnutengt nám
Einnig voru samþykktar á síðasta fundi bæjarstjórnar starfsreglur um atvinnutengt nám í Suðurnesjabæ og var afgreiðsla bæjarráðs samþykkt samhljóða.
Í sveitarfélaginu er nauðsynlegt að fjölga úrræðum vegna unglinga sem standa frammi fyrir sérstökum áskorunum í námi og skólafærni af öðrum orsökum en fötlun. Markmið verkefnisins er að veita þeim sem á þurfa að halda tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og mæta þörfum þeirra sem þurfa að komast í gegnum skólastarfið, hvort sem er á skemmri eða lengri tíma. Með nýjum lögum um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna er mikilvægt að styrkja grunnþjónustu, og þessi úrræði eru hluti af því að auka fjölbreytni og verkfæri skólanna.
Anton Kristinn Guðmundsson,
oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ og formaður bæjarráðs.