Áfram stelpur!
Íslenskar konur hafa í dag sömu réttindi og karlar en glerþökin eru enn til staðar. Launamunur er enn til staðar. Verkefni stjórnmálanna er að vinna að því að fullu jafnrétti verði náð. Í dag eru 41 ár frá fyrsta kvennafrídeginum. Þennan dag, 24. október, árið 1975 felldu fjölmargar konur niður störf í heilan dag til að varpa ljósi á ójafna stöðu sína samanborið við karla. Megin hugmyndin snerist um að sýna samfélagslegt mikilvægi þeirra starfa sem konur unnu og var helsta birtingarmynd þess að vinnustaðir og heimili voru meira og minna óvirk þegar konur lögðu niður störf þennan dag.
Amma Sigga
Móðuramma mín var ein þeirra sem gekk út þennan dag, amma Sigga. Heimilisfólkinu í Vogatungu í Kópavogi, brá í brún þegar þau komu inn á mannlaust heimilið. Hvar var húsmóðirin? Jú, húsmóðirin hafði arkað niður í miðbæ Reykjavíkur til að taka þátt í fyrsta kvennafrídeginum. Áfram stelpur, glumdi um allan bæ. Heimilisstörfin fengu að bíða þann daginn, og fjölskyldumeðlimir sátu ósjálfbjarga við eldhúsborðið, horfðu hvert á annað, og veltu fyrir sér hvað þau ættu að borða. Amma Sigga hafði sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Hún var mikil Kvennalistakona og ól börnin sín upp í anda jafnréttis. Hún fór þá leið sem flestar konur af hennar kynslóð fóru á þessum tíma. Flutti á mölina. Kynntist afa. Þau byggðu hús í Kópavoginum og eignuðust sjö börn. Afi vann mikið, enda fyrir stórum hópi að sjá, og amma hugsaði dæmalaust vel um heimilið. Inn á milli bar hún út blöð, vann stundum í heimilishjálp eða í þvottahúsi spítalanna.
Saga þeirra – saga okkar
Síðan ég tók sæti á Alþingi þá hefur mér mjög oft verið hugsað til formæðra minna. Ég hef reynt að setja sjálfa mig í þeirra spor og öfugt. Ímyndað mér hvernig þeirra líf hefði mögulega orðið hefðu þær fengið þau tækifæri sem ég hef fengið. Sögur okkar fléttast saman á marga vegu. Þær innrættu börnum sínum góða siði, kenndu þeim að vinna væri dyggð, heiðarleiki og umhyggja fyrir fólki og samfélaginu öllu. Þær fengu ekkert upp í hendurnar án þess að hafa fyrir því. Ég nýt góðs af þeirra baráttu.
Sömu tækifæri
Hvað ef þessar sterku konur hefðu fengið sömu tækifæri og ég? Hvað ef þær hefðu getað stýrt því hversu mörg börn þær eignuðust, eða ákveðið hvort þær vildu eignast börn yfir höfuð og starfa sem húsmæður? Íslenskar konur af minni kynslóð hafa val. Við getum valið hvort við göngum í skóla eða ekki, vinnum utan heimilis o.s.frv. Við höfum svo mikið val að inn á milli fyllumst við valkvíða. Við höfum öðlast sömu lagalegu réttindi og karlmenn, þó launamunur kynjanna sé enn til staðar og ósýnileg glerþök enn til staðar víða í samfélaginu. Við þurfum að eyða þeim og aðstoða konur annars staðar í heiminum við að ná jafnrétti. Milljónir kvenna um allan heim eru enn kúgaðar af úreltri hugmyndafræði- fá ekki að kjósa, fá ekki að velja sér maka og fá ekki að aka.
Ég vona að launamunur kynjanna og ójafnrétti af öllu tagi, muni heyra sögunni til á næstu árum og áratugum, bæði hér á Íslandi sem og annars staðar. En hlutirnir gerast ekki af sjálfu sér, við þurfum að vinna saman að því að bæta samfélagið.
Fólk á að njóta jafnréttis í öllum tilfellum, alltaf og alls staðar.
Silja Dögg Gunnarsdóttir,
þingmaður Framsóknarflokksins