Áfram Keflavík
Pistill frá Kristjáni Guðmundssyni þjálfara Keflavíkur
Nú þegar við höfum leikið helming leikja okkar í Pepsí deild karla er ljóst að okkar bíður æsileg barátta á botni deildarinnar.
Barátta sem mun reyna á alla sem að knattspyrnuliði Keflavíkur koma innan sem utan vallar. Í slíkri stöðu skiptir öllu að standa saman að því sameiginlega verkefni sem er að halda sæti okkar í deild þeirra bestu. Þar eiga jú Keflvíkingar alltaf að vera.
Áhersla hefur verið lögð á að leika sem flestum heimamönnum. Ungum og efnilegum leikmönnum sem bæjarfélagið getur verið stolt af en ljóst er að á þeim línum má skerpa enn frekar í framtíðinni. Gríðarlega efnilegir knattspyrnumenn eru nú við æfingar og leik í yngri flokkum félagsins og stutt er í þá stund að einhverjir þeirra leiki í meistaraflokki félagsins í efstu deild.
Þó verður að fara varlega í að setja of miklar byrðar á ungar herðar þegar um glímu við fallbaraáttudrauginn er að ræða því sú glíma reynir verulega á sál og líkama. Þann draug ætlum við að hafa undir og leggja að velli. Einhverjir hafa komið að máli við mig og viðrað þá skoðun sína að kannski væri best að Keflavík færi bara niður um deild til að geta byggt upp lið að nýju í því umhverfi.
Þessu er ég alls ekki sammála og mér finnst engin eiga að velta þessum möguleika upp. Við erum að byggja upp gott Keflavíkurlið í fótbolta og sú vinna mun halda áfram og engin deild er betur til þess fallin en efsta deild, deild þeirra bestu !
Það er því tími á að leggja sjálfsvorkun og grát til hliðar og rísa þess í stað á afturlappirnar og sýna hversu öflugir Keflvíkingar eru í leik og starfi þegar á reynir.
Nú reynir á, nú er tími til að standa saman, nú er tími til að sýna hverjir eru sannir Keflvíkingar , nú er tími til að koma á völlinn og að láta í sér heyra !
Kristján Guðmundsson
Keflavík FC