Afnám verðtryggingar lána
Hvers vegna þurfa íslenskar fjármálastofnanir og fyrirtæki meiri tryggingar og ábyrgðir vegna lána en annarsstaðar þekkist? Þessi staðreynd hefur lítið verið rædd. Íslendingar greiða hæstu vexti, flest langtímalán eru verðtryggð, auk þess sem á Íslandi hefur þróast kerfi ábyrgðar-manna sem á sér ekki hliðstæðu í veröldinni. Sjálfur hef ég oft lagt fram hugmyndir um afnám núverandi ábyrgðarmannakerfis. Þetta verndarkerfi hefur á stundum verið kallað almannatryggingakerfi fjármálafyrirtækja. Hvað sem mönnum kann að finnast um verðtrygginguna er augljóst að almenningur greiðir herkostnaðinn, a.m.k. hér á landi. Er það sjálfsögð niðurstaða að almenningur beri óskipta áhættu af óstöðugleika í efnahagslífinu – en fjármagnseigendur enga? Það er afar mikilvægt að fara að ræða þessa spurningu í samhengi við hvort viðhalda eigi verðtryggingunni.
Verðtrygging
Í stöðugu hagkerfi getur verðtrygging verið neytendum, lántakendum, hagfelld. Við eðlilegar aðstæður á verðtrygging að tryggja lægri vexti vegna minni áhættu lánveitanda og lægri kostnað vegna eignastýringar. Verðtrygging ætti því að tryggja lægra verð á peningum. Ísland er á hinn bóginn dæmi um hið gagnstæða. Hvort sem það er vegna veikrar krónu, óstöðguleika í hagkerfinu, eða óráðsíu er staðreyndin sú að vandfundin er staður þar sem fjármagn er dýrara. Spurningin sem vaknar er sú hvort röksemdir fyrir verðtryggingu eigi ekki við í smáu, óstöðugu hagkerfi einsog hinu íslenska? Svarið er ekki sjálfgefið, en það má auðveldlega halda því fram að afnám verðtryggingar skerði ekki hag lánveitenda þegar til lengri tíma er litið. Afnám verðtryggingar leiddi til aukins stöðugleika, auk þess sem lánastofnanir þyrftu þá í auknum mæli að taka tillit til stýrivaxta Seðlabankans í ákvörðunum sínum. Það yki aðeins áhrif Seðlabankans á íslenskt hagkerfi. Það skapaði aukna ábyrgð og aukin stöðugleika.
Íslenskt ástand
Íslendingar þurfa að greiða miklu hærri fjárhæðir til baka af lánum sem þeir taka en þekkist í nágrannalöndunum. Ástæðan er einföld: Hærri vextir og verðtrygging. Dofri Hermannsson starfsmaður þingflokks
Evru-lán Íslenskt lán
Lánsfjárhæð 15.000.000 15.000.000.
Meðalgreiðsla næstu 12 mánuði 68.321 kr. 75.092 kr.
Meðalgreiðsla yfir allan lánstímann 50.040 kr. 154.547 kr.
Vextir og verðbætur 9.018.990 kr. 59.184.215 kr.
Samtals greitt: 24.018.990 kr. 74.184.215 kr.
Í þessu dæmi munar um 50 milljónum króna á heildargreiðslum á 40 árum. Niðurstaðan er hrópandi. Þar sem vextir á evrusvæðinu eru mun lægri en hér á landi, svo munurinn kann að vera enn meiri.
Niðurlag
Það er augljóst að stöðugleiki í fjármálum er mikilvægur. Verðtryggingin er að hluta til hugsuð til að tryggja stöðugleika og að verðmæti eigna haldi sér í veðbólgu. En það verður einhver að greiða herkostnaðinn. Í okkar tilviki er það almenningur. Það er á hinn bóginn orðið löngu ljóst að herkostnaðurinn er orðinn allt of hár. Það er einnig ekki eðlileg viðskipiti að annar aðilinn, lántakandinn, beri alla áhættu vegna verðbólgu, en lánveitandinn sé tryggður. Það eru eðlileg viðskipti þegar allir taka áhættu, eða henni sé skipt á eðlilegan hátt. Það er ekki sanngjarnt að aðeins annar aðilinn taki hana. Við þetta verður ekki unað mikið lengur. Þessu vil ég breyta.