Afmælisfundur OA samtakana á fimmtudag
Matarfíkn getur verið stórt vandamál í lífi fólks. Overeaters Anonymous (OA) eru samtök sem hafa lausn við þessu vandamáli sem byggir á 12 sporakerfi AA samtakanna. OA félagar eru karlar og konur á öllum aldri um allan heim sem eiga sér þá ósk að halda sér frá matarfíkn og vilja bera boðskap samtakanna um bata áfram til þeirra sem enn þjást.
OA er ekki megrunarklúbbur og setur engin skilyrði um þyngdartap. Með því að viðurkenna vanmátt okkar gagnvart mat, og að kasta frá sér þeirri hugsun að maður þurfi á „viljastyrk“ að halda til að stjórna áti sínu, verður maður fær um að halda sig frá ofáti - einn dag í einu.
OA samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum í janúar árið 1960 og á Íslandi 3. febrúar 1982. Í tilefni af 30 ára afmæli OA samtakanna á Íslandi verður haldinn sérstakur afmælisfundur í húsnæði SÁÁ, Von, Efstaleiti 7, fimmtudaginn 23. febrúar næstkomandi kl. 19:30.
Þrír OA félagar segja sögu sína. Allir velkomnir sem vilja kynna sér málið!
Nánari upplýsingar á www.oa.is