Afkomuviðvörun hjá bakaríunum
Lokaorð Örvars Þórs Kristjánssonar
Janúar er mættur í allri sinni dýrð, margir fagna honum eftir allt sukkið í desember en aðrir kvíða honum. Það eru samt ákveðnar hefðir sem fylgja þessum fyrsta mánuði ársins en þá fer t.d. fram HM í handbolta, þorrablótin detta í gang og fólk flykkist í líkamsræktarstöðvarnar. Ég hef reyndar lítið gert af því að kíkja í ræktina undanfarin ár en þorrablótin og HM hafa skipað stóran sess í skammdeginu.
Nú varð loksins breyting á og tekin sú magnaða ákvörðun að fara í ræktina og ekki bara það heldur að skrá sig í „átak“ ásamt 250 öðrum aðilum af öllum stærðum og gerðum. Geggjaður hópur undir handleiðslu samviskusamra og öflugra kennara. Augnskanninn í Sporthúsinu bræddi gjörsamlega úr sér þegar undirritaður mætti þangað fyrstu vikuna á nýju ári, hann kannaðist ekki við þessi fallegu augu eftir allt of langa fjarveru. „Wendy’s closed 2006,“ sagði skanninn við mig með blíðri röddu. Þá var bara að skella sér í afgreiðsluna og skrá sig aftur, henda sér í djúpu laugina og ekkert helvítis múður. Byrjaði á því eins og svo margir aðrir að láta mæla mig í bak og fyrir, fituprósenta, cm mæling og kílóin vigtuð (var næstum sendur á hafnarvigtina).
Ég mun seint segja það að ég hafi notið þess að láta klípa mig og mæla en þau sem sáu um þetta voru blíð og góð við kallinn. Niðurstaða mælinga var eins og við var að búast, fituprósentan allt of há en ég vonast til þess að hún hrynji á sama hraða og fylgi Miðflokksins eftir Klaustursmálið, þá verður kallinn klár í Speedo-skýluna í sumar. Það verður svo mælt aftur eftir tólf vikur og þá skal sjást árangur. Markmið voru sett og þau voru ansi háleit en það er ekki annað hægt þegar maður heitir Örvar en að spenna bogann hátt.
Það er virkilega erfitt að koma sér af stað en samt nokkuð gaman, afar skemmtilegt fólk sem maður hittir í ræktinni og það er til dæmis afar hvetjandi að sjá jafnvel mun eldra fólk í fínu standi (eins og ritstjóra þessa blaðs sem dæmi). Hreyfingin er svo eitt en mataræði annað.
Mér skilst að bakaríin í bæjarfélaginu hafi sent frá sér afkomuviðvörun þegar það fréttist að ég væri byrjaður í átaki en það mun vonandi með tíð og tíma jafna sig. Matarkarfan hefur svo snögglega hækkað á heimilinu því jú á okkar frábæra landi er mikið dýrara að borða hollt en óhollt. Næstu vikur og mánuðir verða spennandi. Megavika og Héðinsbollur bless í bili og halló brokkolí og blómkál.