Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Áfengisfrumvarp er ógn við almannaheill
Þriðjudagur 28. mars 2017 kl. 06:00

Áfengisfrumvarp er ógn við almannaheill

- Aðsend grein frá fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum

Við undirrituð viljum eindregið hvetja alþingismenn til þess að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum nr. 86 frá 2011 um verslun með áfengi og tóbak.

Embætti landlæknis, samtök lækna, heilbrigðisstarfsfólk og fjölmargir fagaðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum hafa varað við þeirri breytingu sem felst í samþykkt frumvarpsins. Bent er á að rannsóknir sýni að aukið aðgengi að áfengi leiðir til aukinnar áfengisneyslu, sérstaklega hjá ungmennum. Það á einnig til með að auka tíðni einstaklingsbundinna og samfélagslegra vandamála samfara stórauknum samfélagslegum kostnaði. Íslendingar hafa unnið frábært forvarnastarf á undanförnum árum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu barna og ungmenna, náðst hefur árangur sem vakið hefur eftirtekt annarra þjóða.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árangursríkustu forvarnirnar skv. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni eru;

Takmörkun á aðgengi
Neyslustýringarskattur
Bann við áfengisauglýsingum

Verði frumvarpið samþykkt hafa tvær af þremur virkustu forvarnaraðgerðum í áfengisforvörnum verið afnumdar! Í frumvarpinu á að efla aðrar forvarnaraðgerðir sem rannsóknir hafa sýnt að hafa lítil sem engin áhrif á áfengisneyslu miðað við ofangreind atriði.

Bent er á að frumvarpið stangast á við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum, vinnur gegn forvarnarstarfi sveitarfélaga auk þess að stangast á við aðgerðaráætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem og nýlega samþykktum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Einnig vinnur frumvarpið gegn ákvæðum í barnasáttmálanum.
Óskum við þess að alþingismenn taki alvarlega þær ábendingar og athugasemdir sem sérfræðingar hafa bent á og að hagsmunir og velferð heildarinnar og sjónarmið lýðheilsu verði höfð að leiðarljósi og frumvarpinu hafnað.

Alþingismenn ættu að huga að hag íslenskra ungmenna í dag og í framtíðinni, frekar en rekstrarfræðilegum sjónarmiðum og breyta ekki sölufyrirkomulagi á áfengi sem er skynsamlegt eins og það er í dag. Við vildum gjarnan sjá alþingismenn beita sér fyrir því að koma allri sölu á hvers konar tóbaki inn í verslanir ÁTVR.

Einnig viljum við gera athugasemd við að málinu hafi ekki verið vísað til Velferðarnefndar þar sem málið á heima, heldur eingöngu til Allsherjar- og menntamálanefndar þar sem formenn beggja nefnda eru flutningsmenn áðurnefnds frumvarps.

Rut Sigurðardóttir
Frístunda- og forvarnafulltrúi Sandgerðisbæjar
Guðrún Björg Sigurðardóttir
Félagsmálastjóri Sandgerðis, Garðs og Voga
Guðbrandur J. Stefánsson
Íþrótta- og æskulýðsfulltrúi Garðs
Stefán Arinbjarnason
Frístunda- og menningarfulltrúi sv. Voga
Hafþór Barði Birgisson
Íþrótta- og tómstundafulltrúi Reykjanesbæjar
Björg Erlingsdóttir
Sviðstjóri frístunda- og menningarsviðs Grindavíkurbæjar