Af rakavandamálum Reykjanesbæjar
Reykjanesbær er að glíma við harmleik um þessar mundir vegna útbreiddra rakavandamála í húsum okkar sem því miður hýsa leik- og grunnskólastarf.
Við eigum tvo stóra grunnskóla sem sitja tómir vegna umfangsmikilla viðgerða sem munu taka okkur ár að laga til að umhverfið verði heilsusamlegt. Við líkt og önnur sveitarfélög um allt Ísland virðumst vera að fást við þetta vandamál á svipuðum tíma. Hvort sem að grunnorsökin sé vegna veðráttu, viðhalds, efniviðar eða aldurs bygginganna þá skiptir það í raun ekki grundvallarmáli því staðan er eins og hún er.
Reykjanesbær hefur einsett sér að koma börnum og starfsfólki úr þessu umhverfi sem fyrst og hefur komið þeim fyrir í önnur úrræði um allt sveitarfélagið. Þetta fyrirkomulag hefur kallað á heilmikla vinnu, úrræðasemi og einstakt viðhorf allra sem að málinu hafa komið. Þetta hefur tekið á, það er erfitt að vera í þessum aðstæðum og það er erfiðara að vinna við þessar aðstæður.
Viðgerðir hafa staðið lengst yfir í Myllubakkaskóla af öllum byggingunum enda er verið að endurbyggja hann inn í skelina sem skólinn var og stækka hann og betrumbæta á sama tíma. Þessar viðgerðir kosta okkur milljarða og munu taka nokkur ár að klára þessar risastóru framkvæmdir. En það er þó ekki kjarni málsins. Kjarni málsins snýr að því að koma börnunum og starfsfólkinu okkar aftur í skólann sinn, í hefðbundið skólastarf og í heilsusamlegt umhverfi. Það er það sem öll áhersla í bæjarstjórn hefur snúist um.
Því þykir mér mjög miður að sjá færslur frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem meirihlutanum er kennt um aðstæður. Við höfum ráðið bestu sérfræðinga sem völ er á, tekið við öllum þeirra ráðleggingum í hvívetna, tryggt fjármagn í allar umbætur og stofnuðum sérstaka nefnd til að halda utan um verkefnið sem minnihlutinn á fulltrúa í. Hvergi á þessari löngu leið að markmiði okkar, hafa komið fram aðrar hugmyndir frá þeim aðrar en að rífa skólann. Á meðan fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ ætlar að eyða sinni orku í að finna sökudólg og benda á meirihlutann vegna tímaáætlunar nýju skólabúðanna sem því miður stóðust ekki, þá ætlum við að halda áfram að leita leiða til að klára verkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Að mínu mati er mun vænlegra að reyna af öllum mætti að finna leiðir til að laga ástandið og láta það ganga upp.
Það er nefnilega þannig að í hamförum sem þessum þá er lítið til af leikreglum og fyrirmyndum en við reynum okkar besta og tökum upplýstar ákvarðanir með okkar færustu sérfræðingum.
Mig langar að þakka foreldrum og nemendum skólanna fyrir seiglu þeirra á þessum erfiðu tímum. Ég veit að þetta mun taka langan tíma en við munum aftur eiga eðlilegt skólastarf í skólunum. Að lokum langar mig til að þakka starfsfólkinu okkar sem er gríðarlega lausnamiðað og stendur sig svo frábærlega í að halda starfinu gangandi. Við verðum ykkur ævinlega þakklát.
Þessar aðstæður munu ekki vara að eilífu og það mun ekki standa á meirihluta Reykjanesbæjar og vonandi minnihlutanum að berjast áfram í að koma skólunum í eðlilegt horf sem allra fyrst.
Fyrir hönd meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar,
Guðný Birna Guðmundsdóttir,
formaður menntaráðs.